Hlutabréfasala stjórnarformanns danska lækningafyrirtækisins Coloplast, móðurfélags Kerecis, hefur vakið mikla athygli meðal hluthafa félagsins. Hlutabréfaverð félagsins lækkaði um 1,7% í dag.
Í umfjöllun danska viðskiptamiðilsins Børsen segir að í kjölfar sölunnar hafi skapast vangaveltur á danska hlutabréfamarkaðnum um hvort hlutabréfaverð Coloplast sé ofmetið, hvort von sé á slæmu uppgjöri eða hvort kaupin á Kerecis muni reynast jafn farsæl og upphaflega var gert ráð fyrir.
Hlutabréfasala stjórnarformanns danska lækningafyrirtækisins Coloplast, móðurfélags Kerecis, hefur vakið mikla athygli meðal hluthafa félagsins. Hlutabréfaverð félagsins lækkaði um 1,7% í dag.
Í umfjöllun danska viðskiptamiðilsins Børsen segir að í kjölfar sölunnar hafi skapast vangaveltur á danska hlutabréfamarkaðnum um hvort hlutabréfaverð Coloplast sé ofmetið, hvort von sé á slæmu uppgjöri eða hvort kaupin á Kerecis muni reynast jafn farsæl og upphaflega var gert ráð fyrir.
Seldi fyrir 3,6 milljarða íslenskra króna
Lars Rasmussen, stjórnarformaður Coloplast, seldi hlutabréf í félaginu fyrir 178 milljónir danskra króna, eða um 3,6 milljarða íslenskra króna á föstudaginn. Rasmussen á nú 12.100 hluti í Coloplast sem eru um 10,7 milljónir danskra króna að markaðsvirði eða um 218 milljónir íslenskra króna.
Í tilkynningu til dönsku kauphallarinnar kemur fram að Rasmussen hyggst nýta söluandvirðið til að fjárfesta í verkefni utan lækningavörugeirans.
Í samtali við Børsen sagðist hann hafa fengið tækifæri til að fjárfesta í verkefni sem er af allt öðrum toga en Coloplast. Hann bætti þó við að það sé erfitt að finna betri fjárfestingarkost en Coloplast. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um nýja verkefnið sem hann tekur þátt í.
Rasmussen sagðist hafa verið meðvitaður um að salan myndi leiða til vangavelta en bætir við að það sé óhjákvæmilegt. Það verði alltaf litið neikvætt á það þegar innherjar selja og jákvætt á það þegar aðilar tengdir tilteknu félagi fjárfesti í því.
Kaupin á Kerecis helsta áhyggjuefnið
Børsen ræddi við nokkra fjárfesta og aðila í hluthafahópi Coloplast. Tue Simonsen, sjóðstjóri hjá Investering & Tryghed segir það hafi komið upp fleiri rauð flögg en græn í huga hans vegna sölu Rasmussen.
„Helsta áhyggjuefnið mitt er hvort þetta tengist kaupum Coloplast á íslenska lækningavörufyrirtækinu Kerecis. Við erum að bíða eftir að sjá hvort vara Kerecis verði áfram niðurgreidd í bandaríska heilbrigðiskerfinu,“ er haft eftir Simonsen sem gerir ráð fyrir að niðurstaða fáist í það mál á fjórða ársfjórðungi.
„Aftur á móti má túlka þetta þannig að Lars Rasmussen kann að vera sannfærður um að vara Kerecis verði samþykkt til niðurgreiðslna í Bandaríkjunum og fyrir vikið sé öruggt fyrir hann að selja hlutabréf núna.“
Erfitt að sjá eitthvað jákvætt við söluna
Fjárfestingarstjóri hjá lífeyrissjóðnum Akademikerpension, sem hefur fjárfest í Coloplast fyrir hátt í 7 milljarða íslenskra króna, segir að það sé aldrei góður tími fyrir innherja að selja hlutabréf í fyrirtæki sem hann vinnur fyrir.
Lífeyrissjóðurinn sýni ákvörðun Rasmussen að vilja dreifa fjárfestingum sínum á fleiri verkefni. Það sé hins vegar erfitt að sjá eitthvað jákvætt við söluna í ljósi þess að stjórnarformaðurinn er að selja megnið af hlutabréfaeign sinni í lækningavörufyrirtækinu.
Rasmussen leiðir nefnd um góða stjórnarhætti
Stefan Ingildsen, sjóðstjóri hjá BankInvest sem á tæplega 7 milljarða íslenskra króna hlut í Coloplast segir að það veki einkum upp spurningar hversu stór salan er.
Hann bendir þó á að Lars Rasmussen starfar einnig sem stjórnarformaður nefndar um góða stjórnarhætti og hafi gott orðspor meðal fjárfesta. Honum þykir því afar ólíklegt að Rasmussen myndi setja sig í þá stöðu að selja stóran hlut ef von er á slæmum tíðindum hjá Coloplast á næstunni.
Annar viðmælandi Børsen segir að ef það er einhver sem þekkir Coloplast inn og út þá sé það Lars Rasmussen en hann gegndi stöðu forstjóra hjá danska lækningavörufyrirtækinu á árunum 2008-2018 og tók í kjölfarið sæti í stjórn félagsins.