Ráðgjafar- og upplýsingatæknifyrirtækið Accenture, sem velti rúmlega 60 milljörðum dala á síðasta ári, ætlar að fjárfesta talsverðum fjármunum í gervigreind á næstu árum. Þetta kemur fram í grein hjá New York Times.

Þannig tilkynnti félagið í vikunni að það hyggst fjárfesta þremur milljörðum dala, eða sem nemur rúmum 400 milljörðum króna, á næstu þremur árum í tæknina.

Þá gerir félagið ráð fyrir að tvöfalda fjölda gervigreindarsérfræðinga úr 40 þúsund í 80 þúsund, ýmist með ráðningum, þjálfun starfsmanna og kaupum á gervigreindarfyrirtækjum.

Önnur ráðgjafarfyrirtæki hafa sömuleiðis kynnt áform um stórtækar fjárfestingar í gervigreind. PwC kynnti áform sín í apríl um að fjárfesta milljarði dala á næstu þremur árum og EY gaf það út árið 2021 að það ætli í 2,5 milljarða dala fjárfestingar á næstu þremur árum.