First Water, sem áður hét Landeldi, fjárfesti fyrir tæplega 3,7 milljarða króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins. Eggert Þór Kristófersson, forstjóri First Water, segir að á þessu ári verði fjárfest fyrir um sjö milljarða. Á tveimur árum nemur fjárfestingin því tæplega 11 milljörðum.
First Water er fyrst og síðast að fjárfesta í eldisstöðinni við Þorlákshöfn, sem og seiðaeldisstöð, sem fyrirtækið rekur við Hveragerði.
Í fyrra nam tap af rekstrinum um 432 milljónum króna, en það helgast af því að félagið er í uppbyggingarfasa. Sem kunnugt er er fyrirtækið að byggja upp 50 þúsund tonna laxeldi í Þorlákshöfn. Ólíkt sjókvíaeldinu verður laxinn alinn í kerjum uppi á landi.
Framleiðsla hafin
Þó markmiðið sé 50 þúsund tonna ársframleiðsla þá verður það ekki gert í einu vetfangi. Á yfirstandandi ári verður 500 tonnum slátrað og segir Eggert Þór að stefnt sé að 4.500 tonna framleiðslu á næsta ári og að árið 2028 verði framleiðslan komin í 50 þúsund tonn.
Heildarfjárfestingin við 50 þúsund tonna landeldi First Water er áætluð um 100 milljarðar króna. Í september tilkynnti fyrirtækið um 13,7 milljarða króna fjármögnun. Fjárfestingafélagið Stoðir er stærsti fjárfestirinn í First Water en í hlutafjáraukningunni í síðasta mánuði kom Framtakssjóðurinn Horn IV, ásamt hópi innlendra og erlendra fjárfesta á borð við lífeyrissjóði og einkafjárfesta, nýir að félaginu. Horn IV er í rekstri Landsbréfa.
First Water áformar skráningu á hlutabréfamarkað á árinu 2025 og sækja samhliða skráningu aukið fjármagn til áframhaldandi uppbyggingar.
Mikil uppbygging er áformuð í landeldi hérlendis. Líkt og First Water þá er fyrirtækið Geo Salmo að byggja landeldisstöð við Þorlákshöfn, sem verður 24 þúsund tonn og mun hefja starfsemi árið 2025. Laxeldisstöð Samherja er að byggja 40 þúsun