Hlut­fjár­aukning málm­leitar­fé­lagsins Amaroq Minerals, sem hófst á föstu­daginn, fer vel af stað en sam­kvæmt Kaup­hallar­til­kynningu fé­lagsins nú í kvöld hafa fjár­festar lýst yfir á­huga á þátt­töku á á­skriftar­verðinu sem nemur um 5,2 milljörðum ís­lenskra króna.

Á­skriftar­verðið er 127 krónur sem sam­svarar meðal­tals­verði bréfa fé­lagsins síðustu fimm daga hér­lendis en verðið er lægra en meðal­tals­verð gengi fé­lagsins í Kanada. Dagslokagengi Amaroq fyrir helgi var 124 krónur.

Sam­kvæmt fé­laginu verður fjár­magnið nýtt í „að hraða vinnslu, þróun og rann­sóknum með það að mark­miði að auka virði hluta­bréfa fé­lagsins og stað­festa mögu­legt virði eigna­safns þess.“

Um er að ræða námu­vinnslu fé­lagsins í Nalunaq gull­námunni en féð verður notað til að greiða fyrir því að 300 tonna vinnslu­getu á dag verði náð, svo sem varðandi upp­setningu flotrásar og þurr­vinnslu­að­stöðu.

„Í fram­haldi af frá­bærum árangri síðasta sumar leggjum við í frekari fjár­festingar til að efla starf­semi og fram­leiðslu í Nalunaq og hraða rann­sóknum þvert yfir safn okkar af verð­mætum rann­sóknar­leyfum á Suður-Græn­landi og þar með flýta fyrir fram­gangi verk­efna fé­lagsins um tvö ár. Með því festum við í sessi virði Nalunaq gull­námunnar og um leið höldum við á­fram rann­sóknum á gulli og öðrum verð­mætum málmum. Með þessari ráð­stöfun erum við sann­færð um að við getum skapað verð­mæti fyrir hlut­hafa. Auk þess verður fé­lagið nettó skuld­laus,“ segir Eldur Ólafs­son for­stjóri í Kaup­hallar­til­kynningu.

Heimildarskírteini fyrir nýja fjárfesta

Fjár­mögnuninni er ætlað að saman­standa af út­gáfu nýrra al­mennra hluta með nýjum fjár­festum og stofnana­fjár­festum sem þegar eru fjár­festar í fé­laginu á á­skriftar­verðinu en einnig með út­gáfu nýrra heimildar­skír­teina yfir al­menna hluti með nýjum fjár­festum og aðilum sem þegar eru fjár­festar í fé­laginu á á­skriftar­verðinu.

„Það er mjög spennandi að vera stærsti leyfis­hafi námu­vinnslu á Suður-Græn­landi um þessar mundir, á svæði sem hefur að geyma síðustu tæki­færi stjórn­valda og fyrir­tækja á Vestur­löndum til að tryggja öruggar birgðir þeirra verð­mætu málma sem eru bráð­nauð­syn­legir fyrir orku­skipti. Nú munu verð­mætin sem við höfum byggt upp síðustu 8 árin nýtast vel við aukningu rann­sóknar­borana sem munu draga fram mögu­legt virði land­svæða okkar með skjótari hætti,“ segir Eldur.