Í síðustu viku var greint frá áformum um lagningu neðansjávar fjarskiptasæstrengja sem koma til með að bæta gagnatengingar milli Íslands og Bandaríkjanna auk þess að bæta tengingar landsins við meginland Evrópu.

Um er að ræða samstarfsverkefni Modularity, bandarísks félags sem sérhæfir sig í þróun neðansjávar fjarskipta- og gagnastrengja, og Borealis Data Center, sem rekur þrjú gagnaver hér á landi.

Ísland getur orðið þungamiðja

Björn Brynjúlfsson, forstjóri Borealis Data Center, segir í samtali við Viðskiptablaðið að leggja eigi sæstreng frá Bandaríkjunum til Íslands og svo streng frá Íslandi til Evrópu. Þessi áform geti síðan farið lengra eftir því hvernig verkefninu vindur fram.

„Það er gríðarlega jákvætt að fá hingað öfluga aðila sem eru tilbúnir að fjárfesta í þessum mikilvægu fjarskiptainnviðum og í raun gera það á öðrum forsendum heldur en áður hefur verið gert á Íslandi,“ segir Björn.

Aðspurður segist Björn vonast til að hægt verði að greina nánar frá uppbyggingaráformum félagsins þessu tengt fljótlega en Borealis rekur fyrir gagnver á Blönduósi, í Reykjanesbæ og Reykjavík. Ísland hafi burði til að gera sig enn meira gildandi á þessum markaði.

„Það er ákveðin bylting að eiga sér stað í geiranum í krafti hinnar umræddu gervigreindarumbreytingar. Það eru alvöru tækifæri þarna fyrir Ísland að verða ákveðin þungamiðja í reikningi og afleiddum hlutum í gervigreindarvinnslu. Við hjá Borealis höfum verið að vinna mikið með erlendum kúnnum okkar að byggja upp gervigreindarreiknigetu og sjáum þörfina á því bara aukast.“

Björn segir að samstarfið geti haft mjög jákvæð áhrif fyrir samfélagið og upplýsingatækni á landinu í heild sinni, m.a. með bættri öryggistengingu.

Hann segir Írisi, fjarskiptasæstrengur til Írlands sem tekinn var í notkun í fyrra, hafi sem dæmi gjörbreytt forsendum gagnaversrekstrar og öryggi nettenginga í landinu.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um verkefnið í Viðskiptablaði vikunnar.