Ray Dalio, stofnandi Bridgewater Associates, stærsta vogunarsjóðs heims, og leikstjórinn James Cameron hafa keypt hlut í Triton Submarines, sem framleiðir kafbáta fyrir hina ofurríku.

„Það er eitt að fara á snekkju á einhvern fínan stað,“ sagði Dalio við Financial Times. „Ef þú ert hins vegar á snekkju, getur kafað niður og kannað í kringum þig, þá fyrst og fremst mun ferðin verða betri ásamt því að þetta hvetur til könnunarleiðangra.“

Dalio sagði að Triton væri nú í eigu hans, James Cameron og stofnandans Patrick Lahey en neitaði að gefa upp frekari upplýsingar um viðskiptin.

Triton var stofnað árið 2007 af Lahey og Bruce Jones til að framleiða köfunartæki fyrir eigendur snekkja. Verð kafbátanna er á bilinu 2,5-40 milljónir dala, eða 355 milljónir til 5,7 milljarðar króna. Fyrirtækið segist framleiða 4-5 kafbáta á ári og að biðlisti væri eftir tækjunum.

Triton býður upp á nokkrar gerðir af kafbátum en sú stærsta tekur allt að 66 manns. Köfunargeta þeirra nær frá 100 metrum alveg niður að hafsbotni.

Kafbátur frá Triton var notaður af David Attenborough við tökur á annarri þáttaröð Blue Planet í Kóralrifinu mikla utan við austurströnd Ástralíu.