Íslenska stefnumótaforritið Smitten hefur tryggt sér 10 milljóna dala fjárfestingu, eða sem nemur 1,4 milljörðum króna, í fjárfestingu frá Makers Fund, Possible Ventures, Wonder Invest auk núverandi hluthafa. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Meðal núverandi hluthafa sem taka þátt í fjármögnunarlotunni eru ByFounders, ProFounders, Tennin auk Heini Zachariassen, stofnanda Vivino og stjórnarmanns Smitten.

Smitten var stofnað af Davíð Erni Símonarsyni, framkvæmdastjóra og Ásgeiri Vísi, hönnuði. Smitten var gefið út fyrir tæplega tveimur árum síðan af stofnendunum og tæknistjóra Smitten, Magnúsi Ólafssyni, en í dag starfa 16 manns hjá Smitten og fjölgar stöðugt í hópnum. Smitten blandar saman leikjum, skemmtun og daðri til að koma samræðum af stað og tengja notendur saman án fyrirhafnar.

Meira en 60% af pörunum (e. matches) á Smitten enda í samræðum, borið saman við 10% hlutfall hjá stærsta samkeppnisaðilanum Tinder, að því er kemur fram í tilkynningunni. Tugþúsundir virkir notendur Smitten hafa „swipe-að“ yfir 200 milljón sinnum.

Sjá einnig: Ætla að smita Dani

„Við Ásgeir Vísir, meðstofnandi minn, höfum báðir gífurlegan áhuga á samskiptum og hegðunarmynstri fólks. “ segir Davíð Örn Símonarson, framkvæmdastjóri og annar stofnenda Smitten.

„Eftir áratuga reynslu af gerð samskipta- og samfélagsmiðla appa féllum við algjörlega fyrir hinum stafræna stefnumótaheimi og hleyptum Smitten af stokkunum. Með persónulegum leikjum og gagnvirkum prófílum gerum við notendum auðveldara fyrir að tengjast og eiga samtal. Þegar við sáum notendur kolfalla fyrir Smitten vissum við að við gætum orðið leiðandi á stefnumótamarkaði fyrir Z kynslóðina.”

Alli Óttarsson, sem leiðir fjárfestinguna í Smitten fyrir hönd Makers Fund:

„Að draga saman það besta úr samfélagsmiðlum og leikjum hefur vakið mikinn áhuga hjá okkur, en Smitten teyminu hefur tekist ótrúlega vel til við að skapa upplifun sem virkar fyrir ungt fólk.

Eftir að hafa byggt upp sterk tengsl við stofnendur Smitten, Davíð Örn og Ásgeir Vísi, höfum við fengið þann heiður að fylgjast með árangri Smitten frá fremstu víglínu. Við deilum sameiginlegri sýn á það hvernig næsta kynslóð mun tjá sig og kynnast og erum gríðarspennt að vera hluti af vegferð Smitten.”

Starfsteymi Smitten
Starfsteymi Smitten
© Aðsend mynd (AÐSEND)