Leitar Capital Partners er nýtt félag sem mun leggja áherslu á að fjárfesta í ungu og öflugu fólki og styðja það við að finna fyrirtæki til að kaupa og reka. Félagið hefur gengið frá 1,5 milljarða fjármögnun á fyrsta fjárfestingarsjóði félagsins. Breiður hópur fjárfesta og rekstraraðila kemur að sjóðnum sem mun einbeita sér að fjárfestingum í sérstökum leitarsjóðum (e. search funds).
Leitarsjóður er heiti yfir félag sem er stofnað utan um ungan frumkvöðul, oft nefndur leitari, sem Leitar fjármagnar til að finna fyrirtæki til að kaupa. Viðkomandi tekur við sem framkvæmdastjóri við kaup og stýrir fyrirtækinu í gegnum vöxt og umbreytingu þar til ákvörðun er tekin að selja aftur. Einnig fær leitarinn hlut í fyrirtækinu í upphafi sem getur stækkað í hlutfalli við ávöxtun fjárfesta.
„Með stofnun sjóðsins er verið að búa til nýjan valkost fyrir unga einstaklinga sem hafa kjark og metnað. Á undanförnum árum hafa leitarsjóðir orðið einn eftirsóttasti valkostur nemenda að loknu MBA námi erlendis. Í stað þess að ráða sig í vinnu eða stofna fyrirtæki frá grunni þá eru sífellt fleiri að kaupa og reka fyrirtæki í gegnum leitarsjóði,“ segir í tilkynningunni.
„Kynslóðaskipti eru að eiga sér stað á vinnumarkaði nú sem fyrr. Áætlað er að á næstu árum munu fjölmargir atvinnurekendur og eigendur smærri fyrirtækja setjast í helgan stein og þurfa því að koma fyrirtækjum sínum í hendur nýrra eigenda. Vegna þessa hefur leitarsjóðum fjölgað gríðarlega erlendis á undanförnum árum.“
Í tilkynningunni segir að fjárfestingar í leitarsjóðum hafi skilað fjárfestum árlegri meðal nafnávöxtun yfir 30% til langs tíma. Á sama tíma hafi leitarar hagnast ásamt því að byggja upp öflug fyrirtæki.
Fyrrum forstjóri Domino's stjórnarformaður
Leitar Capital Partners verður skráður rekstraraðili sérhæfðra sjóða og að fyrsta sjóðnum koma reynslumiklir rekstraraðilar og einkafjárfestar, ásamt Arion banka og VÍS. Leiðandi fjárfestar í verkefninu eru Íslensk fjárfesting og Birgir Örn Birgisson, fyrrum forstjóri Domino's á Íslandi, sem er stjórnarformaður Leitar Capital Partners. Stjórn félagsins skipa Birgir Örn Birgisson, Þórir Kjartansson, Bjarni Þórður Bjarnason og Einar Steindórsson.
Ráðgjafaráð fyrsta sjóðsins skipa Andri Sveinsson, Arnar Þórisson, Birna Hlín Káradóttir, Gísli Jón Magnússon og Jón Felix Sigurðsson. Stjórn Leitar ásamt ráðgjafaráði mun leiða vinnuna sem framundan en með okkur verða síðan fleiri ráðgjafar og leiðbeinendur bæði frá fjárfestum og öðrum sem vilja taka þátt.
„Verkefni þessa hóps verður að styðja ungt fólk að finna góð fjárfestingartækifæri, útvega eigendum smærri fyrirtækja leið til að selja og á sama tíma byggja upp þekkingu á „search funds“ á Íslandi.“