Kínverska tæknifyrirtækið Xiaomi hyggst fjárfesta um sjö milljörðum dala í framleiðslu örgjörva á næstu tíu árum og mun félagið einnig koma til með að kynna sinn eigin þriggja nanómetra farsímaörgjörva í vikunni.
Á vef WSJ segir að ákvörðunin sé hluti af stefnu Kínverja um að auka sjálfbærni í framleiðslu örgjörva vegna viðskiptastefnu bandarískra yfirvalda.
Lei Jun, stofnandi og forstjóri Xiaomi, greindi frá upphæðinni á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo í dag og sagði að fjárfestingin myndi hefjast í ár.
Hlutabréf Xiaomi hækkuðu um 2% í Hong Kong í dag eftir tilkynninguna en gengi félagsins hefur hækkað um meira en 50% á þessu ári.
Xiaomi hefur jafnframt endurheimt mikla markaðshlutdeild á kínverskum markaði í fyrsta sinn á þessum áratug en fyrirtækið seldi 13,3 milljónir snjallsíma á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, sem er 40% aukning milli ára.