Fjár­festing í gervi­greind heldur áfram með óbreyttum krafti árið 2025 hjá helstu tækni­fyrir­tækjum Bandaríkjanna.

Amazon hefur nú lýst yfir áformum um að verja meira en 100 milljörðum Bandaríkja­dala (13.600 milljörðum króna) í inn­viði tengda gervi­greindarþróun á þessu ári, og skákar þar með keppi­nautum eins og Micros­oft, Goog­le og Meta.

Sam­tals námu fjár­festingar þessara fjögurra stærstu fyrir­tækja á sviði tækninnar 246 milljörðum dala árið 2024, sem var 63% aukning frá árinu 2023.

Sam­kvæmt Financial Times gætu fjár­festingarnar rokið yfir 320 milljarða dala á þessu ári, þar sem fyrir­tækin keppa um að byggja upp gagna­ver til að styrkja stöðu sína í rannsóknum á stórum gervi­greindar­líkönum.

Kapp­hlaupið veldur sveiflum

Þessi gríðar­lega fjár­festing kom mörkuðum á óvart og leiddi til lækkunar á hluta­bréfa­verði sér í lagi eftir að kín­verska sprota­fyrir­tækið Deep­Se­ek kynnti nýtt og ódýrt gervi­greindar­líkan í lok janúar.

Deep­Se­ek full­yrðir að nýja líkanið þeirra geti boðið upp á svipaða virkni og lausnir frá Goog­le og OpenAI, en á broti af kostnaðinum.

Markaðsvirði Micros­oft og Alp­habet (móðurfélags Goog­le) lækkaði um sam­tals 400 milljarða dala eftir að félögin greindu frá minni vexti í skýja­lausnum og stór­felldri aukningu á fjár­festingum.

Hluta­bréfa­verð Goog­le lækkaði um 8% á einum degi, sem er ein mesta lækkun fyrir­tækisins síðasta ára­tuginn.

„Áhugi fjár­festa á gervi­greindinni hefur að hluta til vikið fyrir efa­semdum,“ segir Jim Tier­n­ey, sjóðs­stjóri hjá Alli­ance Bern­stein. „Það eru fleiri sem bíða nú eftir raun­veru­legum árangri áður en þeir treysta áfram­haldandi fjár­festingum.“

Amazon leiðir fjár­festingarnar

Andy Jassy for­stjóri Amazon til­kynnti að fyrir­tækið hyggðist verja yfir 100 milljörðum dala í fjár­festingar á þessu ári, að mestu í gagna­ver og netþjóna fyrir Amazon Web Services (AWS).

Þetta er veru­leg aukning frá 77 milljörðum dala árið 2024 og rúm­lega tvöfalt meira en fyrir­tækið fjár­festi árið 2023.

„Við sjáum skýr merki um eftir­spurn,“ sagði Jassy og bætti við að það rétt­læti áfram­haldandi fjár­festingar. Þrátt fyrir þetta lækkuðu hluta­bréf Amazon um allt að 7% í við­skiptum eftir lokun markaða.

Meta nýtur trausts fjár­festa – Goog­le á undir högg að sækja

Meta, móðurfélag Face­book og Insta­gram, hefur fengið jákvæð viðbrögð frá fjár­festum, þrátt fyrir að félagið ætli sér að auka út­gjöld til gervigreindarþróunar um hundruð milljarða króna til viðbótar.

Mark Zucker­berg, for­stjóri Meta, hefur sýnt fram á mælan­legan árangur með aukinni sölu á mark­vissari aug­lýsingum á sam­félags­miðlum fyrir­tækisins.

Á sama tíma glímir Goog­le við áskoranir þegar kemur að því að samþætta gervigreind við leitar­vél sína án þess að skerða tekjur af hefðbundnum aug­lýsingum.

Stuttar svörunarniður­stöður, eða „AI-over­vi­ews“, sem Goog­le hefur kynnt, ýta hefðbundnum aug­lýsingum neðar í leitarniður­stöðum, sem getur rýrt helstu tekju­lind félagsins.

Deep­Se­ek, kín­verskt sprota­fyrir­tæki, hefur valdið um­róti á markaðnum með nýju AI-líkani sínu, sem sam­kvæmt fyrir­tækinu hefur svipaða getu og Goog­le Gemini og OpenAI, en krefst mun minni fjár­festinga í vél­búnaði. Fréttir af Deep­Se­ek lækkuðu hluta­bréf Nvidia um 17% á einum degi, en fyrir­tækið hefur aðeins að hluta til náð að vinna upp tapið síðan.

Þrátt fyrir vaxandi óvissu eru for­stjórar tækni­fyrir­tækjanna staðráðnir í að halda áfram fjár­festingum.

Sundar Pichai, for­stjóri Goog­le, sagði í vikunni að 75 milljarða dala fjár­festing Goog­le á þessu ári væri „nauð­syn­leg til að mæta því sem gæti orðið stærsta tækifæri okkar í ára­tugi“.

Micros­oft-for­stjórinn Satya Nadella var á svipaðri línu og til­kynnti á ráð­stefnunni í Davos að fyrir­tækið myndi verja 80 milljörðum dala í upp­byggingu Azure-skýjaþjónustunnar. „Þegar þú ert í for­ystu geturðu ekki stigið af bensíngjöfinni,“ sagði Nadella.