Fjárfesting í gervigreind heldur áfram með óbreyttum krafti árið 2025 hjá helstu tæknifyrirtækjum Bandaríkjanna.
Amazon hefur nú lýst yfir áformum um að verja meira en 100 milljörðum Bandaríkjadala (13.600 milljörðum króna) í innviði tengda gervigreindarþróun á þessu ári, og skákar þar með keppinautum eins og Microsoft, Google og Meta.
Samtals námu fjárfestingar þessara fjögurra stærstu fyrirtækja á sviði tækninnar 246 milljörðum dala árið 2024, sem var 63% aukning frá árinu 2023.
Samkvæmt Financial Times gætu fjárfestingarnar rokið yfir 320 milljarða dala á þessu ári, þar sem fyrirtækin keppa um að byggja upp gagnaver til að styrkja stöðu sína í rannsóknum á stórum gervigreindarlíkönum.
Kapphlaupið veldur sveiflum
Þessi gríðarlega fjárfesting kom mörkuðum á óvart og leiddi til lækkunar á hlutabréfaverði sér í lagi eftir að kínverska sprotafyrirtækið DeepSeek kynnti nýtt og ódýrt gervigreindarlíkan í lok janúar.
DeepSeek fullyrðir að nýja líkanið þeirra geti boðið upp á svipaða virkni og lausnir frá Google og OpenAI, en á broti af kostnaðinum.
Markaðsvirði Microsoft og Alphabet (móðurfélags Google) lækkaði um samtals 400 milljarða dala eftir að félögin greindu frá minni vexti í skýjalausnum og stórfelldri aukningu á fjárfestingum.
Hlutabréfaverð Google lækkaði um 8% á einum degi, sem er ein mesta lækkun fyrirtækisins síðasta áratuginn.
„Áhugi fjárfesta á gervigreindinni hefur að hluta til vikið fyrir efasemdum,“ segir Jim Tierney, sjóðsstjóri hjá Alliance Bernstein. „Það eru fleiri sem bíða nú eftir raunverulegum árangri áður en þeir treysta áframhaldandi fjárfestingum.“
Amazon leiðir fjárfestingarnar
Andy Jassy forstjóri Amazon tilkynnti að fyrirtækið hyggðist verja yfir 100 milljörðum dala í fjárfestingar á þessu ári, að mestu í gagnaver og netþjóna fyrir Amazon Web Services (AWS).
Þetta er veruleg aukning frá 77 milljörðum dala árið 2024 og rúmlega tvöfalt meira en fyrirtækið fjárfesti árið 2023.
„Við sjáum skýr merki um eftirspurn,“ sagði Jassy og bætti við að það réttlæti áframhaldandi fjárfestingar. Þrátt fyrir þetta lækkuðu hlutabréf Amazon um allt að 7% í viðskiptum eftir lokun markaða.
Meta nýtur trausts fjárfesta – Google á undir högg að sækja
Meta, móðurfélag Facebook og Instagram, hefur fengið jákvæð viðbrögð frá fjárfestum, þrátt fyrir að félagið ætli sér að auka útgjöld til gervigreindarþróunar um hundruð milljarða króna til viðbótar.
Mark Zuckerberg, forstjóri Meta, hefur sýnt fram á mælanlegan árangur með aukinni sölu á markvissari auglýsingum á samfélagsmiðlum fyrirtækisins.
Á sama tíma glímir Google við áskoranir þegar kemur að því að samþætta gervigreind við leitarvél sína án þess að skerða tekjur af hefðbundnum auglýsingum.
Stuttar svörunarniðurstöður, eða „AI-overviews“, sem Google hefur kynnt, ýta hefðbundnum auglýsingum neðar í leitarniðurstöðum, sem getur rýrt helstu tekjulind félagsins.
DeepSeek, kínverskt sprotafyrirtæki, hefur valdið umróti á markaðnum með nýju AI-líkani sínu, sem samkvæmt fyrirtækinu hefur svipaða getu og Google Gemini og OpenAI, en krefst mun minni fjárfestinga í vélbúnaði. Fréttir af DeepSeek lækkuðu hlutabréf Nvidia um 17% á einum degi, en fyrirtækið hefur aðeins að hluta til náð að vinna upp tapið síðan.
Þrátt fyrir vaxandi óvissu eru forstjórar tæknifyrirtækjanna staðráðnir í að halda áfram fjárfestingum.
Sundar Pichai, forstjóri Google, sagði í vikunni að 75 milljarða dala fjárfesting Google á þessu ári væri „nauðsynleg til að mæta því sem gæti orðið stærsta tækifæri okkar í áratugi“.
Microsoft-forstjórinn Satya Nadella var á svipaðri línu og tilkynnti á ráðstefnunni í Davos að fyrirtækið myndi verja 80 milljörðum dala í uppbyggingu Azure-skýjaþjónustunnar. „Þegar þú ert í forystu geturðu ekki stigið af bensíngjöfinni,“ sagði Nadella.