S&P 500 vísitalan lækkaði um 0,1% í viðskiptum gærdagsins en samkvæmt The Wall Street Journal var ekki mikið um að vera á hlutabréfamörkuðum í gær þar sem fjárfestar bíða í ofvæni eftir nýjum verðbólgutölum.
Von er á verðbólgutölum vestanhafs um hádegisbilið á íslenskum tíma en Jerome Powell seðlabankastjóri sagði í síðustu viku að bankinn væri „ekki langt“ frá því að lækka vexti.
Powell bætti þó við að hann vildi sjá skýrari merki um að 2% verðbólgumarkmið bankans væri í augnsýn áður en vextir yrðu lækkaðir.
The Wall Street Journal greinir frá því að markaðshreyfingar vestanhafs bendi til þess að flestir fjárfestar séu að búast við fyrstu vaxtalækkun í júnímánuði.
Nasdaq vísitalan, þar sem tæknifyrirtækin eru þungamiðjan, lækkaði um 0,4% í gær á meðan Dow Jones vísitalan hækkaði um 0,1%.
Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa til tíu ára hækkaði og endaði daginn í 4,103%.