Úr­vals­vísi­talan OMXI15 hækkaði um 2,53% á síðasta við­skipta­degi fyrir sumar­daginn fyrsta á morgun. Loka­gildi vísitölunnar var 2.490,47 stig.

Hluta­bréfa­verð JBT Marel leiddi hækkanir er gengi félagsins fór upp um 7,6% í 113 milljón króna við­skiptum. Dagsloka­gengi JBT Marel var 12.700 krónur.

Gengi Al­vot­ech hækkaði um tæp 4% í 232 milljón króna við­skiptum. Dagsloka­gengi félagsins var 1090 krónur á hlut.

Lang­mesta veltan í við­skiptum dagsins var með banka­bréf er gengi Kviku banka fór upp um 3% í 847 milljón króna við­skiptum. Dagsloka­gengi Kviku var 13,68 krónur á hlut.

Hluta­bréfa­verð Arion banka hækkaði um tæp 3% í 549 milljón króna við­skiptum og var dagsloka­gengi bankans 158,5 krónur á hlut.

Eina skráða félagið sem lækkaði um meira en 1% í við­skiptum dagsins var Play er gengi flug­félagsins fór niður um 1,5% í ör­við­skiptum. Dagsloka­gengi Play var 0,67 krónur á hlut.

Heildar­velta í Kaup­höllinni var 2,6 milljarðar.