Fjárfestar leita nú í auknum mæli í gull sem örugga eign, á tímum vaxandi óvissu um efnahagsstefnu Bandaríkjanna.

Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs hafa fjárfestingar í gulltengdum kauphallarsjóðum (ETF - exchange traded funds) náð hæstu hæðum síðan á fyrstu mánuðum heimsfaraldursins 2020.

Samkvæmt tölum frá Standard Chartered námu innstreymi fjár í slíka sjóði rúmlega 19,2 milljörðum dala, en Financial Times greinir frá

Verð á gulli náði sögulegum hæðum í dag er únsan fór í 3.148,88 dali. Það jafngildir 19% hækkun frá áramótum.

Þessi þróun endurspeglar breiðari leit að svokölluðum öruggum eignum, líkt og bandarískum ríkisskuldabréfum og reiðufé, á tímum óstöðugs efnahagsástands.

Ástæðan fyrir þessari öruggu stöðutöku margra fjárfesta eru væntingar um að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hyggist tilkynna nýja víðtæka tolla á miðvikudag.

Trump hefur kallað daginn „frelsisdag“ en margir hagfræðingar óttast að tollastefnan geti dregið verulega úr alþjóðlegum hagvexti.

„Óvissan í efnahagsmálum hefur verið lykilþáttur í auknum áhuga á gulli,“ segir Krishan Gopaul, aðalgreinandi hjá World Gold Council. „Markaðurinn er greinilega í varnarstöðu.“

Könnun Bank of America sýnir að hlutfall reiðufjár í eignasöfnum fjárfesta, sem oft er talið merki um varfærni, jókst meira í mars en í nokkrum öðrum mánuði síðustu fimm ár. Þá hefur áhugi aukist á bandarískum ríkisskuldabréfum, sem fjárfestar nota sem skjól gegn sveiflum og vaxandi óvissu í hagkerfinu.

Ávöxtunarkrafa 10 ára bandarískra skuldabréfa hefur lækkað niður í 4,16%, nær lægsta stigi ársins, en þegar krafan hækkar lækkar virði bréfanna.

Ávöxtunarkrafa þýskra ríkisskuldabréfa (Bunds), sem eru talin örugg eign innan evrusvæðisins, fór tímabundið hækkandi í mars vegna væntinga um aukin útgjöld í Þýskalandi. Hún hefur þó lækkað aftur og fór undir 2,7% í gær.

Þótt seðlabankar hafi verið stærstu kaupendur gulls undanfarin ár, þá er nú ljóst að breiðari hópur fjárfesta leitar í málminn.

„Aukin eftirspurn eftir gullkauphallarsjóðum er sú breyting sem mest hefur borið á í gullmarkaðinum að undanförnu,“ segir Suki Cooper, greiningaraðili hjá Standard Chartered.

Hún bendir á að væntingar um lækkandi ávöxtun annars staðar, ásamt áhyggjum af verðbólgu og minni hagvexti, hafi ýtt undir þessa þróun.

Hækkandi gullverð síðustu mánuði hefur einnig haft áhrif á spár stórra banka. Fjárfestingarbankinn Macquarie hefur nú hækkað verðspá sína fyrir árið í 3.500 dali á únsu.

Viðbótarmerki um ótta á mörkuðum eru aukinn innflutningur á gullstöngum til New York, þar sem birgðir á COMEX-markaðnum hafa náð sögulegu hámarki. Þó virðist það flæði nú vera að róast.

Á hlutabréfamörkuðum hefur áhersla á varnarhlutabréf einnig aukist.

Hlutabréf í heilbrigðisgeiranum, sem eru talin síður viðkvæm fyrir sveiflum í hagkerfinu, hafa hækkað um 10% á síðasta mánuði. Til samanburðar hefur S&P 500-vísitalan lækkað um 5% á sama tímabili.