Fjár­festar, einkum í Evrópu og Asíu, hafa undan­farið sett veru­legt fjár­magn í hluta­bréfa­sjóði sem beina fjár­festingum sínum al­farið utan Bandaríkjanna.

Þessi viðhorfs­breyting tengist meðal annars stefnumótun Donalds Trump, for­seta Bandaríkjanna, sam­kvæmt Financial Times.

Sam­kvæmt gögnum frá greiningar­fyrir­tækinu Morningstar nam hreint fjár­inn­streymi í svo­nefnda world ex-US kaup­hallar­sjóði (ETF) alls 2,5 milljörðum Bandaríkja­dala frá byrjun desember og til loka apríl.

Þar af voru yfir 2,1 milljarður dala greiddur inn á síðustu þremur mánuðum einum saman, það er það mesta sem mælst hefur á jafn skömmum tíma í þessum sjóða­flokki.

Þetta markar viðsnúning eftir þrjú ár af sam­felldu fjárút­flæði úr sjóðunum, þegar fjár­festar drógu út um 2,5 milljarða dala á tíma­bilinu 2022–2024.

Á því tíma­bili hækkaði vísi­tala MSCI World ex-USA um 7 pró­sent, á meðan bandaríski S&P 500 hækkaði um 25 pró­sent.

Verndar­tolla­stefnan sem Trump hefur markað frá em­bættistöku veldur nú vaxandi áhyggjum meðal fjár­festa, sem óttast að við­skipta­að­gerðir Bandaríkjanna kunni að bitna meira á inn­lendu hag­kerfi en á alþjóðamörkuðum.

„Við sjáum vaxandi efa­semdir um for­ystu­hlut­verk Bandaríkjanna í alþjóð­legu hag­kerfi og markaðir eru að endur­meta fjár­festinga­grund­völlinn þar í landi,“ segir Kenneth Lamont, aðal­hag­fræðingur hjá Morningstar. „Bandaríkin hafa lengi verið kjör­lendi alþjóð­legs fjár­magns, en það viðhorf er nú aug­ljós­lega að breytast.“

Þó að pólitísk óvissa vegi þungt í ákvörðunum margra fjár­festa bendir Benoit Sorel, for­stöðumaður kaup­hallar­sjóða hjá franska eignastýringar­fyrir­tækinu Amundi, á að breytingarnar skýrist einnig af þörf fyrir að endur­meta áhættu­dreifingu.

„Stór hluti nýrra fjár­festinga í Evrópu á síðasta ári rann í sjóði sem byggjast nær ein­göngu á S&P 500 og MSCI World – vísitölum þar sem Bandaríkin vega yfir 70 pró­sentum.“

Sorel telur að margir evrópskir fjár­festar vilji nú draga úr of mikilli tengingu við Bandaríkin, sér­stak­lega í ljósi sveiflu­kenndrar þróunar í stórum tækni­fyrir­tækjum á borð við Tesla og Nvidia.

Auknar inn­streymistölur hafa kallað fram viðbrögð frá stærstu sjóðastýringar­fyrir­tækjum heims. Bæði BlackRock, þýska DWS og franska Amundi hafa á síðustu mánuðum sett á markað nýja kaup­hallar­sjóði sem beinast al­farið að alþjóð­legum hluta­bréfum án bandarískra eigna.

Amundi kom slíkum sjóði á koppinn í septem­ber 2024, áður en niður­stöður for­seta­kosninganna lágu fyrir.

Bandaríski hluta­bréfa­markaðurinn hefur lengi verið mið­punktur alþjóð­legra fjár­festinga, en ný­leg þróun bendir til þess að sú for­gangs­röðun standi nú tíma­bundið í endur­mati.

Efna­hags­leg og pólitísk áhætta hefur orðið til þess að fjölmargir fjár­festar íhuga fjöl­breyttari nálgun við eigna­dreifingu.

„Fyrir suma evrópska fjár­festa vegur einnig þyngra að þeir vilja ein­fald­lega ekki leggja sitt fé undir áhrif bandarískra stjórn­valda,“ segir Lamont. „Þetta snýst ekki ein­göngu um verðlagningu hluta­bréfa, heldur líka um álit og af­stöðu.“