Fjárfestar, einkum í Evrópu og Asíu, hafa undanfarið sett verulegt fjármagn í hlutabréfasjóði sem beina fjárfestingum sínum alfarið utan Bandaríkjanna.
Þessi viðhorfsbreyting tengist meðal annars stefnumótun Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, samkvæmt Financial Times.
Samkvæmt gögnum frá greiningarfyrirtækinu Morningstar nam hreint fjárinnstreymi í svonefnda world ex-US kauphallarsjóði (ETF) alls 2,5 milljörðum Bandaríkjadala frá byrjun desember og til loka apríl.
Þar af voru yfir 2,1 milljarður dala greiddur inn á síðustu þremur mánuðum einum saman, það er það mesta sem mælst hefur á jafn skömmum tíma í þessum sjóðaflokki.
Þetta markar viðsnúning eftir þrjú ár af samfelldu fjárútflæði úr sjóðunum, þegar fjárfestar drógu út um 2,5 milljarða dala á tímabilinu 2022–2024.
Á því tímabili hækkaði vísitala MSCI World ex-USA um 7 prósent, á meðan bandaríski S&P 500 hækkaði um 25 prósent.
Verndartollastefnan sem Trump hefur markað frá embættistöku veldur nú vaxandi áhyggjum meðal fjárfesta, sem óttast að viðskiptaaðgerðir Bandaríkjanna kunni að bitna meira á innlendu hagkerfi en á alþjóðamörkuðum.
„Við sjáum vaxandi efasemdir um forystuhlutverk Bandaríkjanna í alþjóðlegu hagkerfi og markaðir eru að endurmeta fjárfestingagrundvöllinn þar í landi,“ segir Kenneth Lamont, aðalhagfræðingur hjá Morningstar. „Bandaríkin hafa lengi verið kjörlendi alþjóðlegs fjármagns, en það viðhorf er nú augljóslega að breytast.“
Þó að pólitísk óvissa vegi þungt í ákvörðunum margra fjárfesta bendir Benoit Sorel, forstöðumaður kauphallarsjóða hjá franska eignastýringarfyrirtækinu Amundi, á að breytingarnar skýrist einnig af þörf fyrir að endurmeta áhættudreifingu.
„Stór hluti nýrra fjárfestinga í Evrópu á síðasta ári rann í sjóði sem byggjast nær eingöngu á S&P 500 og MSCI World – vísitölum þar sem Bandaríkin vega yfir 70 prósentum.“
Sorel telur að margir evrópskir fjárfestar vilji nú draga úr of mikilli tengingu við Bandaríkin, sérstaklega í ljósi sveiflukenndrar þróunar í stórum tæknifyrirtækjum á borð við Tesla og Nvidia.
Auknar innstreymistölur hafa kallað fram viðbrögð frá stærstu sjóðastýringarfyrirtækjum heims. Bæði BlackRock, þýska DWS og franska Amundi hafa á síðustu mánuðum sett á markað nýja kauphallarsjóði sem beinast alfarið að alþjóðlegum hlutabréfum án bandarískra eigna.
Amundi kom slíkum sjóði á koppinn í september 2024, áður en niðurstöður forsetakosninganna lágu fyrir.
Bandaríski hlutabréfamarkaðurinn hefur lengi verið miðpunktur alþjóðlegra fjárfestinga, en nýleg þróun bendir til þess að sú forgangsröðun standi nú tímabundið í endurmati.
Efnahagsleg og pólitísk áhætta hefur orðið til þess að fjölmargir fjárfestar íhuga fjölbreyttari nálgun við eignadreifingu.
„Fyrir suma evrópska fjárfesta vegur einnig þyngra að þeir vilja einfaldlega ekki leggja sitt fé undir áhrif bandarískra stjórnvalda,“ segir Lamont. „Þetta snýst ekki eingöngu um verðlagningu hlutabréfa, heldur líka um álit og afstöðu.“