Þýski sandala­fram­leiðandinn Birken­stock verður skráður á markað á mið­viku­daginn í næstu viku en á­hyggjur af út­boðinu eru byrjaðar að krauma vestan­hafs.

Sam­kvæmt fjár­festum og greiningar­aðilum þarf Birken­stock að bæta sölur á sandölum og stíg­vélum bæði í vef­verslun og í verslunum sínum til að fjölga nýjum við­skipta­vinum í nú­verandi efna­hags­um­hverfi.

Sam­kvæmt út­boðs­genginu er markaðs­virði Birken­stock um 10 milljarðar banda­ríkja­dala sem sam­svarar ríf­lega 1.400 milljörðum ís­lenskra króna. Fyrir­tækið stefnir á að setja 32 milljón hluti á markað og verður út­boðs­gengið á bilinu 44 til 49 dalir.

Keyptu fyrirtækið á 4 milljarða árið 2021

Ótti er um að út­boðs­gengið muni ekki halda lengi en fé­lög eins og Insta­cart, Arm og Kella­nova hafa öll séð gengið lækka hægt og ró­lega eftir öflug frumút­boð.

Að mati greiningar­aðila eru neyt­endur að ein­blína á að kaupa ó­dýrar neyslu­vörur í þessu efna­hags­á­standi og því gæti verið lík­legt að sölu­tölur fyrir­tækisins munu lækka á næstu mánuðum eftir mikla aukningu síðustu ár.

L Catter­ton keypti meiri­hluta hluta­fjár í Birken­stock árið 2021 en þegar kaupin fóru í gegn var markaðs­virði fyrir­tækisins metið á 4 milljarða Banda­ríkja­dala. Tveir með­limir í Birken­stock-fjöl­skyldunni eru enn minni­hluta­hlut­hafar í fyrir­tækinu.

Eftir kaupin árið 2021 sagði L Catter­ton að fyrir­tækið ætlaði að sækja fram á Asíu­markaði, sér­stak­lega í Kína og Ind­landi.

Um 3000 starfs­menn vinna hjá Birken­stock og fram­leiðir fyrir­tækið sandala sína í verk­smiðjum í Þýska­landi.

Eignar­halds­fyrir­tækið L Catter­ton varð til árið 2016 þegar LVMH og eignar­halds­fyrir­tæki Bern­hard Arnault fjöl­skyldunnar sam­einuðust banda­ríska eignar­halds­fyrir­tækinu Catter­ton.