Þýski sandalaframleiðandinn Birkenstock verður skráður á markað á miðvikudaginn í næstu viku en áhyggjur af útboðinu eru byrjaðar að krauma vestanhafs.
Samkvæmt fjárfestum og greiningaraðilum þarf Birkenstock að bæta sölur á sandölum og stígvélum bæði í vefverslun og í verslunum sínum til að fjölga nýjum viðskiptavinum í núverandi efnahagsumhverfi.
Samkvæmt útboðsgenginu er markaðsvirði Birkenstock um 10 milljarðar bandaríkjadala sem samsvarar ríflega 1.400 milljörðum íslenskra króna. Fyrirtækið stefnir á að setja 32 milljón hluti á markað og verður útboðsgengið á bilinu 44 til 49 dalir.
Keyptu fyrirtækið á 4 milljarða árið 2021
Ótti er um að útboðsgengið muni ekki halda lengi en félög eins og Instacart, Arm og Kellanova hafa öll séð gengið lækka hægt og rólega eftir öflug frumútboð.
Að mati greiningaraðila eru neytendur að einblína á að kaupa ódýrar neysluvörur í þessu efnahagsástandi og því gæti verið líklegt að sölutölur fyrirtækisins munu lækka á næstu mánuðum eftir mikla aukningu síðustu ár.
L Catterton keypti meirihluta hlutafjár í Birkenstock árið 2021 en þegar kaupin fóru í gegn var markaðsvirði fyrirtækisins metið á 4 milljarða Bandaríkjadala. Tveir meðlimir í Birkenstock-fjölskyldunni eru enn minnihlutahluthafar í fyrirtækinu.
Eftir kaupin árið 2021 sagði L Catterton að fyrirtækið ætlaði að sækja fram á Asíumarkaði, sérstaklega í Kína og Indlandi.
Um 3000 starfsmenn vinna hjá Birkenstock og framleiðir fyrirtækið sandala sína í verksmiðjum í Þýskalandi.
Eignarhaldsfyrirtækið L Catterton varð til árið 2016 þegar LVMH og eignarhaldsfyrirtæki Bernhard Arnault fjölskyldunnar sameinuðust bandaríska eignarhaldsfyrirtækinu Catterton.