Flugfélög víða um heim eiga í erfiðleikum með að sannfæra fjárfesta um að leggja fjármagn sitt á bak við endurreisn ferðaiðnaðarins þrátt fyrir að flugfélögin séu mörg hver að skila veglegum hagnaði og kaupa nýjar flugvélar fyrir tugi milljarða dala, að því er segir í fréttaskýringu sem Financial Times birti í morgun.
Vísað er til þess að hlutabréfavísitala MSCI sem einblínir á alþjóðleg flugfélög er um 40% lægri í dag en fyrir Covid-faraldurinn. Vísitalan hefur fallið um fimmtung frá því í byrjun júlí þrátt fyrir að félög á borð við IAG, móðurfélag IAG, easyJet og Singapore Airlines hafa verið skilað methagnaði.
Það sem af er ári hafa flugfélög pantað fleiri en 2.800 nýjar flugvélar. Í grein FT er þessari fjárfestingu lýst sem veðmáli um að fram undan verði mikið vaxtartímabil í flugiðnaðinum.
Hátt eldsneytisverð ásamt ótta um minnkandi hagvöxt og einkaneyslu hafa dregið kjark úr fjárfestum, sem hafa þegar lengi horft á flugiðnaðinn sem sveiflukennda atvinnugrein sem getur verið mjög viðkvæm fyrir ytri áföllum.
Margir efins um reksturinn yfir vetrartímann
Hlutabréf nokkurra asískra flugfélaga, þar á meðal Singapore Airlines, hefur gengið ágætlega sem rakið er til mikils áhuga á ferðalögum í álfunni í kjölfar Covid-faraldursins. Í Bandaríkjunum hefur flugfélögum sem reiða sig minna á innanlands flug gengið betur en samkeppnisaðilar sínir. Þá segir að margir fjárfestar horfi á Ryanair sem leiðandi flugfélag í Evrópu á næstu árum en hlutabréfaverð írska félagsins hefur hækkað um meira en 40% í ár.
Hins vegar náðu hlutabréf Air France-KLM sínu lægsta gengi frá upphafi á sama dag og flugfélagið tilkynnti um methagnað á þriðja ársfjórðungi.
Haft er eftir einum greinanda að fjárfestar horfi margir í gegnum uppgjörin vegna áhættu í tengslum við flugrekstur yfir vetrartímann.
Í umfjölluninni segir að farþegatölur flugfélaganna bendi til töluverðrar eftirspurnar eftir ferðalögum í vetur. Nýleg gögn sýni þó að stríðsátök í Miðausturlöndum hafi sett strik í reikninginn hvað bókunarstöðu félaganna varðar.