Á síðustu árum hafa margir af þekkustu tónlistarmönnum selt rétt á tekjustreymi af tónlistarsöfnum sínum fyrir himinháar fjárhæðir. Nú eru nokkur fjárfestingarfélög farin að beina sjónum sínum að YouTube myndböndum.

Meðal þeirra eru Spotter Inc. og Keli Network Inc., sem starfar undir nafninu Jellysmack. Þessi félög bjóða vinsælum áhrifavöldum á YouTube pening í skiptum fyrir rétt að auglýsingatekjum af gömlum myndböndum þeirra. Samningarnir eru allt að fimm ár að lengd.

Spotter segist hafa eytt 740 milljónum dala, eða sem nemur 105 milljörðum króna, í slíka leyfissamninga frá árinu 2019. Fyrirtækið tilkynnti fyrr í ár að það stefni að því að hafa fjárfest einum milljarði dala fyrir mitt ár 2023. Jellysmack segist hafa sett 500 milljónir dala til hliðar fyrir sambærilega samninga. Tæknisjóður SoftBank, Vision Fund, hefur fjárfest í báðum fyrirtækjum.

Buðu einum áhrifavaldi 300 milljónir

Wall Street Journal ræddi við Justin Watkins sem heldur úti YouTube rásinni Thinknoodles þar sem hann gefur út myndbönd af sér að spila tölvuleiki á borð við Roblox. Rásin er með hatt í níu milljónir áskrifendur.

Watkins segir að Jellysmack hafi boðið sér 2,1 milljónir dala eða ríflega 300 milljónir króna rétt að auglýsingatekjum af YouTube-myndbandasafni hans til næstu fimm ára. Spotter bauð honum samning upp á eina milljón dala.

Hann segir jafnframt að tilboð Jellysmack hafi falið í sér klásúlu um að fyrirtækið gæti krafist endurgreiðslu ef hann næði ekki að búa til 41 myndband að jafnaði á mánuði.

Í umfjöllun WSJ segir að áætluð útgjöld auglýsenda á Youtube í ár séu um 29,5 milljarðar dala samkvæmt mati Credit Suisse.