Síðasta við­skipta­degi með hluta­bréf skandinavíska flug­fé­lagsins SAS lauk um tvö­leytið á ís­lenskum tíma í dag. Flug­fé­lagið, sem sótti um greiðslu­stöðvun í júlí 2022, hefur enn verið skráð á markað í Kaup­manna­höfn, Stokk­hólmi og Ósló.

SAS sendi frá sér kaup­hallar­til­kynningu í gær þar sem greint var frá því að síðasti við­skipta­dagur yrði í dag og að bréf í fé­laginu yrðu í kjöl­farið verð­laus. Til­kynningin kom fáum á ó­vart enda fé­lagið ó­gjald­fært.

Jacob Peder­sen, yfir­maður verð­bréfa­deildar S­yd­bank, hefur fylgst náið með gengi fé­lagsins í tuttugu ár.

„Það eru tíma­mót að þessu sé lokið,“ segir Peder­sen í sam­tali við danska við­skipta­miðilinn Børsen. „Þetta hefur verið löng þjáningar­saga,“ bætir Peder­sen við.

Saga SAS á markaði hefur ein­kennst af mikilli ó­kyrrð en einnig verið afar dýr fyrir hlut­hafa. Sam­kvæmt gögnum frá Nor­d­net áttu 19.300 Danir enn bréf í fé­laginu.

Þá áttu 4.300 Danir til við­bótar hluta­bréf í fé­laginu skráð hjá Saxo Bank.

„Markaðs­virði SAS náði há­marki árið 2007 er fé­lagið var metið á um 21 milljarð danskra króna. Há­markið náðist í júlí það ár þegar það var í um­ræðunni að Luft­hansa ætlaði að kaupa flug­fé­lagið. Á þessum tíma­punkti var allt í blóma en síðan kom efna­hags­hrunið og það hefur verið löng leið niður á við síðan þá,“ segir Peder­sen.

Fjár­festar í fé­laginu voru í skýjunum árið 2007 og aftur í kringum 2017/2018 þegar fé­lagið var að skila á­gætum hagnaði á ný.

Peder­sen segir að hann hafi verið alveg ná­lægt því að falla í þá gildru árið 2018 trúa á að fé­lagið væri að snúa rekstrinum við.

Hins vegar hafi mögu­legt gjald­þrot fé­lagsins alltaf svifið yfir vötnum. Fé­lagið skilaði þó hagnaði fimm ár í röð áður en Co­vid-far­aldurinn skall á.

„Tap fjár­festa á meðan fé­lagið var á markaði hefur verið stjarn­fræði­lega mikið. Síðustu fimm­tán ár fé­lagsins hafa ein­kennst af hluta­fjár­aukningum og erfiðu rekstrar­um­hverfi. Ég held að enginn muni minnast þessara fimm ára sem fé­lagið skilaði hagnaði,“ segir Peder­sen.

Peder­sen segist hafa eytt síðustu tveimur árum í að öskra á alla sem enn áttu hluti í flug­fé­laginu að losa sig við þá þar sem þeir væru alltaf að fara enda verð­lausir. Í kjöl­far til­kynningarinnar í gær er auð­vitað nær ó­mögu­legt að selja bréfin þar sem enginn er á kaup­hliðinni enda verða bréfin verð­laus á morgun.

Gengi flug­fé­lagsins sem var ná­lægt botninum féll þó um 73,1% í við­skiptum dagsins í Kaup­höllinni í Kaup­manna­höfn.

Fyrir tilkynninguna í gær var markaðsvirði SAS 116 milljónir danskra króna sem Pedersen segir að sé alveg galið þar sem það hefur verið augljóst frá árinu 2022 að bréf í félaginu væru verðlaus.

Að hans sögn var markaðsvirði gærdagsins einungis byggt á einhverjum falsvonum um að félagið yrði keypt upp á klink af fjárfestum en slíkt hafi aldrei verið í kortunum.

„Kröfu­hafar hafa ekki fengið greitt og það verður auð­vitað ekkert fé eftir fyrir hlut­hafa,“ segir Peder­sen.