Síðasta viðskiptadegi með hlutabréf skandinavíska flugfélagsins SAS lauk um tvöleytið á íslenskum tíma í dag. Flugfélagið, sem sótti um greiðslustöðvun í júlí 2022, hefur enn verið skráð á markað í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Ósló.
SAS sendi frá sér kauphallartilkynningu í gær þar sem greint var frá því að síðasti viðskiptadagur yrði í dag og að bréf í félaginu yrðu í kjölfarið verðlaus. Tilkynningin kom fáum á óvart enda félagið ógjaldfært.
Jacob Pedersen, yfirmaður verðbréfadeildar Sydbank, hefur fylgst náið með gengi félagsins í tuttugu ár.
„Það eru tímamót að þessu sé lokið,“ segir Pedersen í samtali við danska viðskiptamiðilinn Børsen. „Þetta hefur verið löng þjáningarsaga,“ bætir Pedersen við.
Saga SAS á markaði hefur einkennst af mikilli ókyrrð en einnig verið afar dýr fyrir hluthafa. Samkvæmt gögnum frá Nordnet áttu 19.300 Danir enn bréf í félaginu.
Þá áttu 4.300 Danir til viðbótar hlutabréf í félaginu skráð hjá Saxo Bank.
„Markaðsvirði SAS náði hámarki árið 2007 er félagið var metið á um 21 milljarð danskra króna. Hámarkið náðist í júlí það ár þegar það var í umræðunni að Lufthansa ætlaði að kaupa flugfélagið. Á þessum tímapunkti var allt í blóma en síðan kom efnahagshrunið og það hefur verið löng leið niður á við síðan þá,“ segir Pedersen.
Fjárfestar í félaginu voru í skýjunum árið 2007 og aftur í kringum 2017/2018 þegar félagið var að skila ágætum hagnaði á ný.
Pedersen segir að hann hafi verið alveg nálægt því að falla í þá gildru árið 2018 trúa á að félagið væri að snúa rekstrinum við.
Hins vegar hafi mögulegt gjaldþrot félagsins alltaf svifið yfir vötnum. Félagið skilaði þó hagnaði fimm ár í röð áður en Covid-faraldurinn skall á.
„Tap fjárfesta á meðan félagið var á markaði hefur verið stjarnfræðilega mikið. Síðustu fimmtán ár félagsins hafa einkennst af hlutafjáraukningum og erfiðu rekstrarumhverfi. Ég held að enginn muni minnast þessara fimm ára sem félagið skilaði hagnaði,“ segir Pedersen.
Pedersen segist hafa eytt síðustu tveimur árum í að öskra á alla sem enn áttu hluti í flugfélaginu að losa sig við þá þar sem þeir væru alltaf að fara enda verðlausir. Í kjölfar tilkynningarinnar í gær er auðvitað nær ómögulegt að selja bréfin þar sem enginn er á kauphliðinni enda verða bréfin verðlaus á morgun.
Gengi flugfélagsins sem var nálægt botninum féll þó um 73,1% í viðskiptum dagsins í Kauphöllinni í Kaupmannahöfn.
Fyrir tilkynninguna í gær var markaðsvirði SAS 116 milljónir danskra króna sem Pedersen segir að sé alveg galið þar sem það hefur verið augljóst frá árinu 2022 að bréf í félaginu væru verðlaus.
Að hans sögn var markaðsvirði gærdagsins einungis byggt á einhverjum falsvonum um að félagið yrði keypt upp á klink af fjárfestum en slíkt hafi aldrei verið í kortunum.
„Kröfuhafar hafa ekki fengið greitt og það verður auðvitað ekkert fé eftir fyrir hluthafa,“ segir Pedersen.