Fjárfestar hafa fækkað bandarískum hlutabréfum í eignasöfnum sínum meira en nokkru sinni fyrr, samkvæmt nýrri könnun Bank of America (BofA).

Óstöðugt efnahagsástand og viðskiptastríð Bandaríkjanna við helstu viðskiptaþjóðir hefur valdið miklum áhyggjum á mörkuðum og leitt til stórfelldrar sölu á Wall Street.

Samkvæmt könnun BofA lækkuðu fjárfestingar í bandarískum hlutabréfum um 40 prósentustig í mars og færðust úr 17% yfirvigt í febrúar niður í 23% undirvigt.

Þetta er mesta breyting sem mælst hefur í sögu könnunarinnar, sem er ein sú áhrifaþyngsta í fjárfestasamfélaginu, samkvæmt Financial Times.

Þessi hraði og mikli viðsnúningur er sá mesti frá falli markaða í mars 2020 þegar Covid-19 faraldurinn hófst.

Fjárfestar nefna sérstaklega þrjár meginástæður fyrir þessari skyndilegu breytingu:

  1. Óttinn við kreppuverðbólgu, þar sem efnahagsvöxtur hægist á sama tíma og verðbólga helst há.
  2. Viðskiptastríð Trumps, en auknar tollaaðgerðir Bandaríkjanna hafa vakið ótta um neikvæð áhrif á hagkerfið.
  3. Endalok bandarískrar yfirburðastöðu, þar sem margir fjárfestar telja að bandarísk hlutabréf hafi þegar náð hámarki.

„Fjárfestar voru afar bjartsýnir í upphafi árs en núna hafa þeir snúist alfarið á sveif með svartsýnisfólki,“ segir Elyas Galou, sérfræðingur hjá Bank of America.

Þó að bandarísk hlutabréf hafi orðið fyrir höggi hafa evrópskir markaðir notið mun meiri áhuga fjárfesta en oft áður.

Stöður í evrópskum félögum jukust um 27 prósentustig í mars og hafa ekki verið fleiri síðan í júlí 2021.

Þetta er hraðasta breytingin úr Bandaríkjunum yfir í Evrópu síðan Bank of America hóf slíkar mælingar árið 1999.

„Það kemur ekki á óvart að fjárfestar séu að leita annað en til Bandaríkjanna,“ segir Trevor Greetham, sjóðsstjóri hjá Royal London Asset Management við FT. „Markaðurinn þar hefur verið verðlagður fyrir fullkomnun en stefnan úr Hvíta húsinu er langt frá því að vera sú.“

Tæknigeirinn í undirvigt

Eitt af því sem vakti mesta athygli í könnun BofA var neikvæð afstaða til tæknifyrirtækja.

Fjárfestar drógu mjög úr hlutabréfaeign í þessum geira, niður í 12% undirvigt sem er lægsta hlutfall í rúm tvö ár.

Þess í stað hafa þeir snúið sér að banka- og orkugeiranum, auk þess sem áhugi á breskum hlutabréfum hefur aukist. Þrátt fyrir þessa breytingu hafa fjárfestar ekki flutt fé í ríkisskuldabréf í sama mæli; skuldabréfastöður lækkuðu lítillega og meirihluti fjárfesta er enn í undirvogun í þessum flokki.

Michael Metcalfe, yfirmaður stefnumótunar hjá State Street Global Markets, segir að þetta sé ekki klassísk „flóttaáhætta“ þar sem fjárfestar selji allt heldur frekar „jafnvægisbreyting“ en merki séu um að fjárfestar séu ekki að undirbúa sig fyrir langvarandi lækkun á mörkuðum.

Þessar niðurstöður benda þó til þess að fjárfestar séu að stokka upp eignasöfnum sínum hratt og draga úr áhættu á Bandaríkjamarkaði.

Að sögn sérfræðinga eru breytingarnar ekki aðeins afleiðing óvissu í Bandaríkjunum heldur einnig hluti af stærri þróun þar sem Evrópa hefur verið að sækja í sig veðrið sem ákjósanlegri fjárfestingarkostur.

Bank of America framkvæmdi könnunina í vikunni sem lauk 13. mars og hún náði til 171 þátttakenda með samtals 477 milljarða dala í stýringu.