Skuldabréfafjárfestar eru að losa sig við skuldabréf í ruslflokki í hrönnum vestanhafs er gjaldþrot fyrirtækja aukast samhliða ótta um að mörg fyrirtæki séu komin að þolmörkum vegna hárra vaxta.
Munurinn á lánskostnaði fyrirtækja með CCC lánshæfismat, sem mynda lægri hluta 1,3 billjóna (e.trillion) ruslbréfamarkaðar Bandaríkjanna, og fyrirtækja í BB lánshæfismati er sögulega mikill, samkvæmt Financial Times.
Samkvæmt FT sýnir þetta að fjárfestar eru orðnir áhyggjufullir yfir stöðu fyrirtækja með lánshæfismat í ruslflokki en hár lánskostnaður eða slæmt aðgengi að fjármagni gæti verið náðarhöggið fyrir mörg fyrirtæki sem falla þar undir.
Samkvæmt Torsen Slok, aðalhagfræðingi fjárfestingafyrirtækisins Apollo, er söluþrýstingurinn á ruslbréfum tilkominn vegna ótta um yfirvofandi samdrátt á næstu mánuðum sem gæti komið sér afar illa fyrir fyrirtæki með slæmt aðgengi að ódýru fjármagni.
Söluþrýstingurinn á skuldabréfum í ruslflokki setur þrýsting á vaxtalækkun í Bandaríkjunum en samkvæmt FT gætu óbreyttir vextir næstu mánuði haft afar slæm áhrif á efnahaginn
Verðbólga í Bandaríkjunum hjaðnaði meira en spár gerðu ráð fyrir í júní og eiga flestir von á vaxtalækkun í septembermánuði.
Álagið sem fyrirtæki með CCC lánshæfismat eru að greiða umfram samsvarandi ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa hækkaði í 9,59% í síðustu viku.