Bandaríski seðlabankinn hélt stýrivöxtum óbreyttum við síðustu vaxtaákvörðun en útilokaði ekki frekari hækkanir á árinu. Jerome Powell seðlabankastjóri gaf þó sterklega í skyn að vextir væru ekki að fara lækka í bráð.
Samkvæmt The Wall Street Journal er þetta áhyggjuefni fyrir fjölmörg fyrirtæki vestanhafs en háar vaxtagreiðslur eru nú þegar farin að höggva allverulega í hagnað víða.
Sem dæmi má nefna gæludýraverslunarrisann Petco sem tók 1,7 milljarða dala lán árið 2021 á 3,5% vöxtum en þarf núna að greiða 9% vexti á ársgrundvelli.
Greiða 21 milljarð í vexti
Vaxtakostnaður fyrirtækisins er því um 153 milljónir dala á ársgrundvelli sem samsvarar 21 milljörðum íslenskra króna.
Samkvæmt uppgjöri annars ársfjórðungs fór um fjórðungur af eigið fé fyrirtækisins í að greiða af láninu en árið 2021 var hlutfallið um 5%.
Stjórnendur fyrirtækisins greindu einnig frá því í uppgjöri að meginmarkmið næstu mánaða væri að reyna draga úr lánakostnaðinum.
Petco er þó ekki einsdæmi þar sem fjölmörg bandarísk fyrirtæki tóku lán í lágvaxtarumhverfi faraldursins sem eru byrjuð að bíta núna. Í flestum tilfellum er um að ræða fyrirtæki með slæmt lánhæfismat.
Matsfyrirtækið Fitch telur að um 270 milljarða dala skuldir hjá fyrirtækjum með lélegt lánstraust séu í hættu á að gjaldfellast á næstunni.