Fjárfestar hafa verið að kaupa bandarísk skuldabréf í meira magni en áður samkvæmt Financial Times þar sem enn er titringur á mörkuðum um að samdráttur gæti verið yfirvofandi.
Fjárfestar voru fljótir að stökkva á ríkisskuldabréf í mánudagsuppþotinu í síðustu viku en fjölmargir sneru aftur á hlutabréfamarkaðinn strax á þriðjudaginn.
Samkvæmt FT eru sjóðsstjórar enn hrifnir af skuldabréfum í núverandi árferði þar sem það er að hægjast á hagvexti og verðbólgan að hjaðna. Bandaríski seðlabankinn, líkt og aðrir seðlabankar víðs vegar um heiminn, er að undirbúa vaxtalækkanir.
Jákvætt innflæði í skuldabréf í Bandaríkjunum, bæði ríkis- og fyrirtækjabréf, nam 57,4 milljörðum dala í júlímánuði sem er mesta mánaðarlega innflæði frá því í janúar.
Skuldabréf fyrirtækja með lánshæfismat í fjárfestingarflokki hafa séð jákvætt innflæði tíu vikur í röð sem hefur ekki gerst í fjögur ár.
„Besta vörnin gegn niðursveiflu og samdrætti eru ríkisskuldabréf,“ segir Robert Tipp, yfirmaður skuldabréfadeildar PGIM Fixed Income, í samtali við Financial Times.