Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, gagnrýnir stjórnvöld nokkuð harðlega í uppgjörstilkynningu félagsins. Hann segir afkomu félagsins í fyrra ekki hafa verið ásættanlega en Hagnaður þess dróst saman um meira en þriðjung milli ára.

Guðmundur segir að undanfarið hafi átt sér stað þróun við stjórnun fiskveiða á Íslandi sem ekki horfi til heilla hvorki fyrir samfélagið í heild, fyrirtækin í sjávarútvegi eða náttúruna.

„Sú staðreynd að afkoma sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi er veik í dag þegar horft er til ávöxtunar á bókfært eigið fé, sem viðskiptalíf um allan heim horfir til, virðist ekki breyta því almenna viðhorfi hér á landi sem birtist í nær allri umræðu um sjávarútveg að greinin sé takmarkalítil og fyrirhafnarlaus uppspretta skatta sem nýta megi í allt annað en framfarir í greininni.“

Ávöxtun meiri hjá fasteigna- og verslunarfélögum

Hann segir að óvissan í rekstrarumhverfi sjávarútvegsins hafi ekkert minnkað eftir að ný ríkisstjórn tók við, nema síður sé.

„Í dag boðar ný ríkisstjórn aukin veiðigjöld og aðkomu samkeppnisyfirvalda að greininni en hún er sú eina í landinu þar sem lög hamla vexti fyrirtækja löngu áður en þau ná stöðu sem ógnar alþjóðlegum og innlendum samkeppnisviðmiðum.

Er svo komið að rekstrarumhverfið og framtíðarhorfur í greininni eru þannig að bæði stofnanafjárfestar og almennir fjárfestar sýna sjávarútvegsfyrirtækjum sífellt minni áhugi enda ávöxtun meiri í rekstri fasteigna- og verslunarfélaga eða fjármálafyrirtækja.“

Samtal stjórnvalda við greinina fallið niður

Guðmundur telur að dregið hafi samtali milli Alþingis og starfsfólks sjávarútvegsráðuneytisins við fólk í sjávarútvegi um breytingar á lögum eða útfærslur á nýjum lögum og reglugerðum. Það sé óheppilegt ef reynsla og þekking á undirstöðum greinarinnar endurspegli ekki ný lög og reglur.

Þá segir hann ráðherra sjávarútvegs hafa æ oftar ákveðið að fara aðeins að tilmælum sinnar undirstofnunar, Hafrannsóknarstofnunar varðandi nýtingu fiskistofna en ekki átt samtal við aðra hagaðila eða tekið tillit til annara sjónarmiða.

„Síður hefur verið hlustað á eða haft samstarf við forustufólk sjávarútvegsfyrirtækjanna eða skipstjóra fiskiskipanna um þessar mikilvægu ákvarðanir. Þessi þróun er ekki í samræmi við siðareglur FAO um ábyrgð í fiskimálum og er að mati okkar í Brimi áhyggjuefni fyrir íslenska þjóð.“

Að lokum hvetur hann stjórnvöld til að auka fyrirsjáanleika í atvinnugreinum eins og sjávarútvegi og í auðlindanýtingu almennt þar sem fjárfestingar eru miklar. Nauðsynlegt sé að hafa fyrirsjáanleika svo hægt sé að nýta þessar miklu fjárfestingar til að auka velsæld.

„Með auknum stöðugleika og farsælu samstarfi atvinnulífsins og stjórnvalda skapast forsendur til verðmætasköpunar sem er forsenda velferðar á okkar eyju.”

Afkoman síðast lakari árið 2020

Brim hagnaðist um 40,5 milljónir evra, eða um 6 milljarða króna, sem samsvarar 35,6% samdrætti frá árinu 2023. Tekjur Brims drógust saman um 10,9% milli ára og námu 389 milljónum evra, eða um 58 milljörðum króna.

EBITDA-hagnaður Brims dróst saman um 32,8% milli ára og nam 65 milljónum evra, eða sem samsvarar 9,8 milljörðum króna. EBITDA-hagnaður félagsins var síðast minni árið 2020

Félagið segir aðalástæðuna fyrir lakari afkomu vera að stjórnvöld leyfðu engar loðnuveiðar. Þá hafi úthlutun í djúpkarfa verið engin í upphafi ársins og einnig hafi stjórnvöld hamlað Brimi að veiða stóran hluta síns þorskkvóta í Barentshafi á árinu.

Mynd tekin úr fjárfestakynningu Brims.

Greiða út 2,9 milljarða

Eignir Brims námu samtals 143,3 milljörðum króna í árslok 2024. Skuldir voru um 73,0 milljarðar og eigið fé 70,3 milljarðar. Eiginfjárhlutfall í lok árs var 49%.

Stjórn Brims leggur til að greiddur verði arður að fjárhæð 2.888 milljónir króna, eða 1,5 króna á hlut, vegna rekstrarársins 2024 í samræmi við arðgreiðslustefnu félagsins. Arðgreiðslan samsvarar 2,0% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2024.