Fjórföld eftirspurn var eftir hlutafé Ölgerðarinnar í almennu hlutafjárútboði fyrirtækisins sem lauk í gær klukkan 16:00. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kviku banka, sem hafði umsjón með útboðinu.
Alls bárust í útboðinu u.þ.b. 6.600 áskriftir fyrir um 32,4 milljarða króna, en alls voru seldir hlutir fyrir um 7,9 milljarða. Ríflega þreföld eftirspurn var í tilboðsbók A en um fimmföld í tilboðsbók B. Í tilboðsbók A var endanlegt útboðsgengi 8,9 krónur á hlut en í tilboðsbók B var endanlegt útboðsgengi 10,03 krónur á hlut. Alls voru seldir 827,3 milljónir hluta, eða 29,5% af hlutafé Ölgerðarinnar.
Samkvæmt fjárfestakynningu Ölgerðarinnar munu allir hluthafar að frátöldum lykilstarfsmönnum selja hluti sína til jafns í útboðinu. Því má gera ráð fyrir að framtakssjóðurinn Horn III, sem er stærsti hluthafi Ölgerðarinnar með um fjórðungshlut, fái tæpa tvo milljarða króna í sinn hlut, OA eignarhaldsfélag í eigu forstjórans Andra Þórs Guðmundssonar og stjórnarformannsins Októs Einarssonar fái tæpa 1,3 milljarða króna í sinn hlut og Sindrandi ehf., í eigu Boga Þórs Siguroddssonar fái um 1,1 milljarð króna í sinn hlut.