Fjár­festar vestan­hafs virðast vera búast við því að sala á Tesla-raf­bílum verði minni í ár en Elon Musk, stofnandi fyrir­tækisins, hefur spáð fyrir um.

Sam­kvæmt greiningum Fact­Set er Tesla lík­legt til að selja 2,07 milljónir bíla á þessu ári, sem er 16% aukning frá 2024, en Financial Times greinir frá.

Mun það vera um 20-30% minni vöxtur en Musk spáði fyrir um í október og mun lægra en 40% meðaltals­vöxtur undan­farinna ára.

Trump-stjórnin hefur gefið út til­skipun um að skoða af­nám „ósann­gjarnra niður­greiðslna og annarra illa hugsaðra ríkis­styrkja “.

Þau áform setja þrýsting á Tesla, þar sem bandarískir kaup­endur raf­bíla njóta um þessar mundir um 7500 dala skatta­afsláttar með því að kaupa raf­bíl.

Um tveir þriðju af allri sölu Tesla í Bandaríkjunum njóta þessara ívilnana, sam­kvæmt greiningu Barcla­ys banka.

Ef Trump af­nemur skatta­afsláttinn gæti það tekið gildi árið 2026 en sam­kvæmt FT telja sér­fræðingar að þetta geti valdið aukinni sölu árið 2025 þar sem kaup­endur munu flýta sér að nýta ívilnanirnar áður en þær hverfa.

Aðrir telja að þessi „fram­keypta sala“ sé nú þegar farin að hafa áhrif á sölutölur Tesla og því verður árið í heild ekki svo gott..

Markaðs­hlut­deild raf­bíla í Bandaríkjunum jókst aðeins í 8% árið 2024, saman­borið við 7,6% árið áður. Hækkandi verð og skortur á nýjum módelum hefur hægt á vexti og Tesla stendur frammi fyrir aukinni sam­keppni, sér­stak­lega frá kín­verskum fram­leiðendum.

Í Evrópu hefur sala á Tesla-bif­reiðum dregist saman. Sam­kvæmt Acea féll sala Tesla um 13% í Evrópu í fyrra.

Sér­fræðingar benda á að gömul vörulína Tesla og um­deildar pólitískar yfir­lýsingar Musk, þar á meðal stuðningur hans við Trump, hafi valdið neikvæðum viðhorfum til fyrir­tækisins.