Fjárfestar vestanhafs virðast vera búast við því að sala á Tesla-rafbílum verði minni í ár en Elon Musk, stofnandi fyrirtækisins, hefur spáð fyrir um.
Samkvæmt greiningum FactSet er Tesla líklegt til að selja 2,07 milljónir bíla á þessu ári, sem er 16% aukning frá 2024, en Financial Times greinir frá.
Mun það vera um 20-30% minni vöxtur en Musk spáði fyrir um í október og mun lægra en 40% meðaltalsvöxtur undanfarinna ára.
Trump-stjórnin hefur gefið út tilskipun um að skoða afnám „ósanngjarnra niðurgreiðslna og annarra illa hugsaðra ríkisstyrkja “.
Þau áform setja þrýsting á Tesla, þar sem bandarískir kaupendur rafbíla njóta um þessar mundir um 7500 dala skattaafsláttar með því að kaupa rafbíl.
Um tveir þriðju af allri sölu Tesla í Bandaríkjunum njóta þessara ívilnana, samkvæmt greiningu Barclays banka.
Ef Trump afnemur skattaafsláttinn gæti það tekið gildi árið 2026 en samkvæmt FT telja sérfræðingar að þetta geti valdið aukinni sölu árið 2025 þar sem kaupendur munu flýta sér að nýta ívilnanirnar áður en þær hverfa.
Aðrir telja að þessi „framkeypta sala“ sé nú þegar farin að hafa áhrif á sölutölur Tesla og því verður árið í heild ekki svo gott..
Markaðshlutdeild rafbíla í Bandaríkjunum jókst aðeins í 8% árið 2024, samanborið við 7,6% árið áður. Hækkandi verð og skortur á nýjum módelum hefur hægt á vexti og Tesla stendur frammi fyrir aukinni samkeppni, sérstaklega frá kínverskum framleiðendum.
Í Evrópu hefur sala á Tesla-bifreiðum dregist saman. Samkvæmt Acea féll sala Tesla um 13% í Evrópu í fyrra.
Sérfræðingar benda á að gömul vörulína Tesla og umdeildar pólitískar yfirlýsingar Musk, þar á meðal stuðningur hans við Trump, hafi valdið neikvæðum viðhorfum til fyrirtækisins.