Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,2% milli mánaða í Bandaríkjunum og hækkaði ársverðbólgan því úr 3% í 3,2% en hagfræðingar segja hækkunina innan skekkjumarka þar sem verðbólgan var óvenju lág í júlímánuði 2022.
Samkvæmt markaðshreyfingum virðast fjárfestar vera veðja á að bandaríski seðlabankinn haldi stýrivöxtum óbreyttum út árið eftir verðbólgutölur dagsins. Örfáir fjárfestar virðast þó vera veðja á að bankinn hækki vexti.
Fleiri gögn fyrir fund nefndarinnar
Stýrivextir í Bandaríkjunum eru á bilinu 5,25 og 5,5% og hafa þeir ekki verið hærri í 22 ár.
Næsti fundur peningastefnunefndar bandaríska seðlabankans er í september en áður en nefndin kemur saman birtast vinnumarkaðstölur fyrir ágústmánuð 1. september og verðbólgutölur fyrir ágústmánuð 13. september.