Peningastefnunefnd Englandsbanka kemur saman á fimmtudaginn en óvissa ríkir um hvort nefndin muni hækka vexti eða halda þeim óbreyttum.
Samkvæmt viðskiptablaði The Guardian sýna fjárfestingar á peningamarkaði hins vegar að 80% líkur séu á því að vextir verði hækkaðir úr 5,25% í 5,5% á meðan 20% líkur eru á að þeir haldist óbreyttir.
James Smith, hagfræðingur ING bankans, segir hausverk seðlabankans snúast fremur að því hversu lengi vextir eigi að haldast háir fremur en hvort þeir eigi að hækka um 25 punkta eða ekki.
Þjóðhagsspá Goldman Sachs uppfærð
Smith vildi ekki útiloka að vextir haldist óbreyttir en að mati greiningardeildar ING skiptir meira máli hversu lengi þeir haldast yfir 5%. Næstum 85% húsnæðislána í Bretlandi eru með fasta vexti í tiltölulega skamman tíma.
Meðalafborgun á húsnæðislánum hefur hækkað úr 2% í 3% en búist er við því að hún hækki í 4% á næsta ári hvort sem bankinn hækkar vexti eður ei.
Greiningardeild ING útilokar ekki að vextir haldist óbreyttir á fimmtudaginn og hækki frekar vexti í nóvember.
Reuters gerði skoðanakönnun meðal 62 breskra hagfræðinga í ágústmánuði en af þeim sögðu allir nema einn að vextir myndu hækka um 25 punkta í september.
Hagfræðingar sammæltust í könnunni um að það yrði síðasta stýrivaxtahækkun ársins og vextir myndu ná hámarki í 5,5%. Goldman Sachs uppfærði hins vegar þjóðhagsspá sína í morgun þar sem greiningardeild bankans telur nú að vextir nái hámarki í 5,75%.
Ársverðbólgan í Bretlandi náði hámarki í 11,1% í október en mældist 6,8% í júlímánuði sem er þó enn meira en þrefalt hærri en 2% verðbólgumarkmið seðlabankans.