Peningastefnunefnd Englandsbanka kemur saman á fimmtudaginn en óvissa ríkir um hvort nefndin muni hækka vexti eða halda þeim óbreyttum.

Sam­kvæmt við­skipta­blaði The Guar­dian sýna fjár­festingar á peninga­markaði hins vegar að 80% líkur séu á því að vextir verði hækkaðir úr 5,25% í 5,5% á meðan 20% líkur eru á að þeir haldist ó­breyttir.

James Smith, hag­fræðingur ING bankans, segir haus­verk seðla­bankans snúast fremur að því hversu lengi vextir eigi að haldast háir fremur en hvort þeir eigi að hækka um 25 punkta eða ekki.

Þjóðhagsspá Goldman Sachs uppfærð

Smith vildi ekki úti­loka að vextir haldist ó­breyttir en að mati greiningar­deildar ING skiptir meira máli hversu lengi þeir haldast yfir 5%. Næstum 85% hús­næðis­lána í Bret­landi eru með fasta vexti í til­tölu­lega skamman tíma.

Meðal­af­borgun á hús­næðis­lánum hefur hækkað úr 2% í 3% en búist er við því að hún hækki í 4% á næsta ári hvort sem bankinn hækkar vexti eður ei.

Greiningar­deild ING úti­lokar ekki að vextir haldist ó­breyttir á fimmtu­daginn og hækki frekar vexti í nóvember.

Reuters gerði skoðanakönnun meðal 62 breskra hagfræðinga í ágústmánuði en af þeim sögðu allir nema einn að vextir myndu hækka um 25 punkta í september.

Hagfræðingar sammæltust í könnunni um að það yrði síðasta stýrivaxtahækkun ársins og vextir myndu ná hámarki í 5,5%. Goldman Sachs uppfærði hins vegar þjóðhagsspá sína í morgun þar sem greiningardeild bankans telur nú að vextir nái hámarki í 5,75%.

Árs­verð­bólgan í Bret­landi náði há­marki í 11,1% í októ­ber en mældist 6,8% í júlí­mánuði sem er þó enn meira en þre­falt hærri en 2% verð­bólgu­mark­mið seðla­bankans.