Samkvæmt Financial Times benda hreyfingar á mörkuðum til þess að fjárfestar búist við því að Evrópski seðlabankinn og Englandsbanki muni lækka vexti fyrr en áætlað er.
Efnahagsleg gögn bæði í Bretlandi og á evrusvæðinu benda til þess að stöðnun sé yfirvofandi sem eykur líkurnar á vaxtalækkun.
Peningastefnunefndir bankanna tveggja sem og bandaríska seðlabankans ákváðu að halda vöxtum óbreyttum við síðustu vaxtaákvörðun.
Áhyggjur allra þriggja nefnda um að háir vextir væru að ýta undir samdrátt í hagkerfinu sem og jákvæð teikn á lofti um lækkandi verðbólgu höfðu þar áhrif.
Tímalínan færð fram
Seðlabankastjórar bankanna þriggja vöruðu þó allir við því að verðbólguþrýstingur væri enn til staðar og baráttan við verðbólguna langt frá því að vera búin.
Christine Lagerde, forseti Evrópska seðlabankans, sagði það væri alltof snemmt að fara ræða um stýrivaxtalækkanir og tók Andrew Bailey, seðlabankastjóri Englandsbanka, í sama streng.
Breska hagstofan birti upplýsingar um sölu í smávöruverslunum á föstudaginn en þar var að sjá mun meiri samdrátt en búist var við. Á sama tíma birtust gögn um iðnaðarframleiðslu á evrusvæðinu sem að mati FT hafi verið nægilega lítil til að sannfæra fjárfesta um að seðlabankarnir muni lækka vexti fyrir næsta sumar.
Englandsbanki gæti þurft að lækka vexti fyrr
Frekari stýrivaxtahækkanir eru ekki í hugum margra og virðast fjárfestar vera að veðja á fyrstu stýrivaxtalækkanirnar í Bretlandi, Bandaríkjunum og Evrópu í júní.
Mun það vera töluverð breyting á milli mánaða en í október bjuggust flestir við stýrivaxtalækkun í byrjun árs 2025 eða september 2024.
„Líkurnar á vaxtalækkun fyrr en seinna eru frekar miklar og ekki bara út af verðbólgan er að lækka heldur út af efnahagssamdrættinum,“ segir Tomasz Wieladek, aðalhagfræðingur T Rowe Price, í samtali við Financial Times.
Wieladek útilokar ekki að ef efnahagur Bretlands heldur áfram að staðna muni Englandsbanki lækka vexti í maí.