Peter Cancro keypti á táningsaldri samlokustaðinn Jersey Mike´s árið 1975. Nú nærri 50 árum síðar er hann að ganga frá sölu á bróðurparti af hlut sínum í samlokukeðjunni í samningi sem er um 8 milljarða dala virði.

Kaupandinn er Blackstone, stærsta eignastýringarfélag heims. Cancro, sem er 67 ára, mun áfram gegna stöðu framkvæmdastjóra auk þess að eiga 10% hlut eftir að viðskiptin ganga í gegn.

Cancro hóf störf á samlokustaðnum samhliða menntaskólagöngu en árið 1975 ákváðu þáverandi eigendur að selja reksturinn. Móðir Cancro hvatti hann til að kaupa reksturinn sem og hann gerði.

Í nærri hálfrar aldar eigendatíð hans hefur hann byggt upp samlokuveldi en til marks um það eru staðirnir um 3.500 talsins í Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada og víðar.