Sam­kvæmt tíu ára spá Gold­man Sachs mun S&P 500 vísi­talan hækka um 3% að meðaltali á ári næstu tíu árin. Spá Bank of America hljóðar upp á 0% til 1% hækkun ár­lega næsta ára­tuginn.

Bankarnir tveir eru að spá því að hægja muni veru­lega á stjarn­fræði­legu verðmati á stóru tækni­risunum sem hafa verið að leiða hækkanir vísitölunnar í ár. S&P 500 vísi­talan hefur hækkað um 28% það sem af er ári.

Bankarnir tveir hvetja þó fjár­festa til að fjár­festa í bandarískum hluta­bréfum þar sem spá þeirra gerir ráð fyrir ágætis ávöxtun árið 2025 þrátt fyrir slæmt meðal­tal næstu tíu ár.

Að þeirra mati er undir­liggjandi vanda­málið ein­falt. Hluta­bréfa­verð er orðið ansi hátt á næstum alla mæli­kvarða og sögu­lega þýðir það lítilli ávöxtun til lengri tíma.

The Wall Street Journal greinir frá spá bankanna og segir að þrátt fyrir að markaðsvirði margra félaga sé hátt í til dæmis samræmi við hagnað og veltu þá megi ekki van­meta að hátt hluta­bréfa­verð getur alltaf hækkað.

Gengi S&P 500 vísitölunnar og Nas­daq er í sögu­legri hæð um þessar mundir og hafa tækni­fyrir­tækin átt stóran þátt þar.

Hluta­bréfa­verð Nvidia hefur hækkað um 218% á árinu, Meta um 78%, Tesla um 48% og Amazon um 47%, svo dæmi séu tekin.

Fjár­festar hafa verið æstir í að fjár­festa í öllum félögunum sem tengjast gervi­greind með ein­hverjum hætti síðastliðin ár.

JP Morgan spáir því að tæknirisarnir sjö muni eyða um 500 milljörðum Bandaríkja­dala í þróun gervi­greindar. Til saman­burðar eyðir bandaríska ríkið 1 billjón dala í öll varnar­mál.

Fjár­festar virðast vera að búast við ágætis ávöxtun af þessari gervi­greindar­fjár­festingu en sam­kvæmt WSJ segir sagan að það sé ekki alltaf raunin. Sögu­lega hefur það ekki reynst vel þegar fyrir­tæki fjár­festa svona mikið af eigin fé í sömu körfunni.

Sögulega er V/H-hlutfall félaga fremur hátt um þessar mundir.