Samkvæmt tíu ára spá Goldman Sachs mun S&P 500 vísitalan hækka um 3% að meðaltali á ári næstu tíu árin. Spá Bank of America hljóðar upp á 0% til 1% hækkun árlega næsta áratuginn.
Bankarnir tveir eru að spá því að hægja muni verulega á stjarnfræðilegu verðmati á stóru tæknirisunum sem hafa verið að leiða hækkanir vísitölunnar í ár. S&P 500 vísitalan hefur hækkað um 28% það sem af er ári.
Bankarnir tveir hvetja þó fjárfesta til að fjárfesta í bandarískum hlutabréfum þar sem spá þeirra gerir ráð fyrir ágætis ávöxtun árið 2025 þrátt fyrir slæmt meðaltal næstu tíu ár.
Að þeirra mati er undirliggjandi vandamálið einfalt. Hlutabréfaverð er orðið ansi hátt á næstum alla mælikvarða og sögulega þýðir það lítilli ávöxtun til lengri tíma.
The Wall Street Journal greinir frá spá bankanna og segir að þrátt fyrir að markaðsvirði margra félaga sé hátt í til dæmis samræmi við hagnað og veltu þá megi ekki vanmeta að hátt hlutabréfaverð getur alltaf hækkað.
Gengi S&P 500 vísitölunnar og Nasdaq er í sögulegri hæð um þessar mundir og hafa tæknifyrirtækin átt stóran þátt þar.
Hlutabréfaverð Nvidia hefur hækkað um 218% á árinu, Meta um 78%, Tesla um 48% og Amazon um 47%, svo dæmi séu tekin.
Fjárfestar hafa verið æstir í að fjárfesta í öllum félögunum sem tengjast gervigreind með einhverjum hætti síðastliðin ár.
JP Morgan spáir því að tæknirisarnir sjö muni eyða um 500 milljörðum Bandaríkjadala í þróun gervigreindar. Til samanburðar eyðir bandaríska ríkið 1 billjón dala í öll varnarmál.
Fjárfestar virðast vera að búast við ágætis ávöxtun af þessari gervigreindarfjárfestingu en samkvæmt WSJ segir sagan að það sé ekki alltaf raunin. Sögulega hefur það ekki reynst vel þegar fyrirtæki fjárfesta svona mikið af eigin fé í sömu körfunni.