Sam­kvæmt árs­hluta­upp­gjöri Reita námu leigu­tekjur félagsins 4.305 milljónum króna á fyrsta fjórðungi ársins 2025, saman­borið við 3.921 milljón króna á sama tíma­bili árið áður. Það sam­svarar 9,8% aukningu. Rekstrar­hagnaður fyrir mats­breytingar var 2.801 milljón króna og jókst um 10,2% á milli ára.

Að teknu til­liti til mats­breytinga nam hagnaður tíma­bilsins 1.094 milljónum króna, saman­borið við 2.536 milljónir á fyrsta fjórðungi 2024.

Félagið fjár­festi fyrir þrjá milljarða króna á fjórðungnum og hefur þegar fjár­fest fyrir sam­tals 5,2 milljarða það sem af er ári. Helstu fjár­festingar eru kaup á 201 Hótel í Hlíðarsmára 5–7 í Kópa­vogi. Gert er ráð fyrir að við­skiptin klárist í sumar.

Fjár­festingum félagsins er skipt í þrjá flokka: eigna­kaup sem skila tekjum nær sam­stundis, endur­bóta- og fram­kvæmda­verk­efni á eigna­safninu og þróunar­verk­efni til lengri tíma.

„Árið fer vel af stað hjá okkur. Mark­viss fjár­festing síðasta árs veitir okkur meðbyr og styður við tekju­vöxt og aukningu rekstrar­hagnaðar á fyrsta árs­fjórðungi. Vaxtar­stefna félagsins er leiðar­ljósið í allri starf­semi þess og það er góður taktur í verk­efnum þvert á vaxtar­stoðir Reita sem eru að kaupa, byggja og þróa fast­eignir,” segir Guðni Aðal­steins­son for­stjóri Reita í upp­gjörinu.

Þróunar­verk­efnum Reita á Kringlu­reit og í Korputúni miðar áfram. Á Kringlu­reit var nýtt deili­skipu­lag fyrir fyrsta áfanga aug­lýst í apríl og rennur um­sagnar­frestur út 9. júní. Sá áfangi felur í sér 420 íbúðir. Til­laga um 15.000 fer­metra íbúða­byggð og 2.000–3.000 fer­metra skrif­stofur í næsta áfanga liggur einnig fyrir.

Í Korputúni eru fram­kvæmdir hafnar og hluti svæðisins seldur til JYSK. Í upp­gjörinu er færð mats­breyting upp á 1,1 milljarð króna vegna fram­vindu verk­efnisins. Ný til­laga um upp­byggingu 108 íbúða fyrir eldri borgara hefur verið lögð fram og eru fyrstu viðbrögð skipu­lags­nefndar Mos­fells­bæjar jákvæð.

Fram­kvæmdum við Suður­lands­braut 34 og Ár­múla 7–9 eru að ljúka og nýir leigu­takar eru að flytja inn. Þá miðar einnig upp­byggingu Hyatt hótels við Lauga­veg 176 áfram. Um­sókn hefur verið lögð inn um stækkun hótelsins til að fjölga her­bergjum.

Nýir leigu­samningar voru undir­ritaðir vegna Hilton Nor­di­ca og Reykja­vík Natura. Leigu­taki nýtti for­leigurétt sinn. Áætlað er að samningarnir skili auknum tekjum upp á 620 milljónir króna fyrstu tvö árin og 720 milljónir króna að þeim loknum. Á­formaðar eru endur­bætur á hótelunum fyrir sam­tals þrjá milljarða króna á næstu árum.

„Nú þegar ár er liðið frá því að við mörkuðum og kynntum nýja vaxtar­stefnu félagsins höfum við fjár­fest fyrir um 23,3 milljarða sem nálgast fljót­lega fjár­festingar­mark­mið okkar fyrir 2024 og 2025 sem eru 25 milljarðar. Fjár­festingin skilar sér í vexti til skemmri og lengri tíma og styrkir enn frekar leiðandi stöðu Reita á markaði.

Við erum einnig stolt af því að leggja mikilvægt fram­lag til sam­félagsins með upp­byggingu og þróun inn­viða á borð við hjúkrunar­heimili sem brýn nauð­syn er á, og fjölgun íbúða, ekki síst smærri og hag­kvæmra íbúða sem mikil eftir­spurn er eftir,“ segir Guðni.

Horfur fyrir árið eru óbreyttar en félagið áætlar að tekjur verði á bilinu 17.700 til 18.000 milljónir króna og rekstrar­hagnaður fyrir mats­breytingar á bilinu 11.750 til 12.000 milljónir. Nýir samningar og fjár­festingar færa félagið nær efri mörkum áætlana, sam­kvæmt upp­gjöri.