Samkvæmt árshlutauppgjöri Reita námu leigutekjur félagsins 4.305 milljónum króna á fyrsta fjórðungi ársins 2025, samanborið við 3.921 milljón króna á sama tímabili árið áður. Það samsvarar 9,8% aukningu. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar var 2.801 milljón króna og jókst um 10,2% á milli ára.
Að teknu tilliti til matsbreytinga nam hagnaður tímabilsins 1.094 milljónum króna, samanborið við 2.536 milljónir á fyrsta fjórðungi 2024.
Félagið fjárfesti fyrir þrjá milljarða króna á fjórðungnum og hefur þegar fjárfest fyrir samtals 5,2 milljarða það sem af er ári. Helstu fjárfestingar eru kaup á 201 Hótel í Hlíðarsmára 5–7 í Kópavogi. Gert er ráð fyrir að viðskiptin klárist í sumar.
Fjárfestingum félagsins er skipt í þrjá flokka: eignakaup sem skila tekjum nær samstundis, endurbóta- og framkvæmdaverkefni á eignasafninu og þróunarverkefni til lengri tíma.
„Árið fer vel af stað hjá okkur. Markviss fjárfesting síðasta árs veitir okkur meðbyr og styður við tekjuvöxt og aukningu rekstrarhagnaðar á fyrsta ársfjórðungi. Vaxtarstefna félagsins er leiðarljósið í allri starfsemi þess og það er góður taktur í verkefnum þvert á vaxtarstoðir Reita sem eru að kaupa, byggja og þróa fasteignir,” segir Guðni Aðalsteinsson forstjóri Reita í uppgjörinu.
Þróunarverkefnum Reita á Kringlureit og í Korputúni miðar áfram. Á Kringlureit var nýtt deiliskipulag fyrir fyrsta áfanga auglýst í apríl og rennur umsagnarfrestur út 9. júní. Sá áfangi felur í sér 420 íbúðir. Tillaga um 15.000 fermetra íbúðabyggð og 2.000–3.000 fermetra skrifstofur í næsta áfanga liggur einnig fyrir.
Í Korputúni eru framkvæmdir hafnar og hluti svæðisins seldur til JYSK. Í uppgjörinu er færð matsbreyting upp á 1,1 milljarð króna vegna framvindu verkefnisins. Ný tillaga um uppbyggingu 108 íbúða fyrir eldri borgara hefur verið lögð fram og eru fyrstu viðbrögð skipulagsnefndar Mosfellsbæjar jákvæð.
Framkvæmdum við Suðurlandsbraut 34 og Ármúla 7–9 eru að ljúka og nýir leigutakar eru að flytja inn. Þá miðar einnig uppbyggingu Hyatt hótels við Laugaveg 176 áfram. Umsókn hefur verið lögð inn um stækkun hótelsins til að fjölga herbergjum.
Nýir leigusamningar voru undirritaðir vegna Hilton Nordica og Reykjavík Natura. Leigutaki nýtti forleigurétt sinn. Áætlað er að samningarnir skili auknum tekjum upp á 620 milljónir króna fyrstu tvö árin og 720 milljónir króna að þeim loknum. Áformaðar eru endurbætur á hótelunum fyrir samtals þrjá milljarða króna á næstu árum.
„Nú þegar ár er liðið frá því að við mörkuðum og kynntum nýja vaxtarstefnu félagsins höfum við fjárfest fyrir um 23,3 milljarða sem nálgast fljótlega fjárfestingarmarkmið okkar fyrir 2024 og 2025 sem eru 25 milljarðar. Fjárfestingin skilar sér í vexti til skemmri og lengri tíma og styrkir enn frekar leiðandi stöðu Reita á markaði.
Við erum einnig stolt af því að leggja mikilvægt framlag til samfélagsins með uppbyggingu og þróun innviða á borð við hjúkrunarheimili sem brýn nauðsyn er á, og fjölgun íbúða, ekki síst smærri og hagkvæmra íbúða sem mikil eftirspurn er eftir,“ segir Guðni.
Horfur fyrir árið eru óbreyttar en félagið áætlar að tekjur verði á bilinu 17.700 til 18.000 milljónir króna og rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar á bilinu 11.750 til 12.000 milljónir. Nýir samningar og fjárfestingar færa félagið nær efri mörkum áætlana, samkvæmt uppgjöri.