Óvissa vegna efnahags- og tollastefnu Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefur komið sér vel fyrir stærstu fjárfestingarbanka heims. Á fyrsta ársfjórðungi jókst hagnaður Goldman Sachs um 15% og nam 4,74 milljörðum bandaríkjadala, eða 14,12 dölum á hlut – langt umfram væntingar markaðsaðila.
Heildartekjur bankans hækkuðu um 6% og námu 15,06 milljörðum dala. Þar vó þyngst veruleg aukning í tekjum af viðskiptum, einkum í hlutabréfaviðskiptum og lánveitingum til viðskiptavina á þeim markaði. Sá þáttur skilaði 27% tekjuaukningu.
Óvissan knýr viðskipti og dregur úr ráðgjöf
Samkvæmt stjórnendum bankans höfðu margir fjárfestar í upphafi árs stillt eignasöfn sín með von um áframhaldandi yfirburði bandarísks efnahagslífs.
Sú sýn hefur þó dofnað, og nú leita margir til evrópskra og suður-amerískra verðbréfa til að dreifa áhættu og verjast sveiflum á bandarískum mörkuðum.
Tekjur af afleiðuviðskiptum með hlutabréf voru sérstaklega miklar á fyrsta ársfjórðungi, þar sem fjárfestar leituðust við að tryggja sig gegn aukinni óvissu og mögulegri verðbólgu.
Goldman Sachs bætist þar með í hóp með JPMorgan Chase og Morgan Stanley sem einnig skiluðu auknum hagnaði, knúnum áfram af vaxandi viðskiptatekjum. Bankarnir hafa hagnast vel á þóknunum sem fylgja stöðubreytingum fjárfesta og aðlögun að óljósri stefnu ríkisstjórnarinnar.
Hins vegar hefur óstöðugleiki haft letjandi áhrif á aðra þætti starfseminnar.
Fjárfestingabankahluti Goldman Sachs dróst saman um 8% og ráðgjafaþóknanir lækkuðu um 22%, þar sem fyrirtæki frestuðu samrunum, yfirtökum og frumútboðum vegna vaxandi markaðsóvissu.
Væntingar til stöðugleika
Fram kemur að háttsettir bankastjórnendur hafi um helgina átt fjölda funda með forstjórum stórfyrirtækja til að meta hvenær nægilegur stöðugleiki gæti náðst til að hefja aftur frumútboð og samrunaferli.
Samkvæmt yfirmanni hjá Goldman Sachs er það stöðugleiki í alþjóðaviðskiptum sem nú skiptir sköpum. Hann sagði þörf á nokkrum rólegum fréttadögum áður en fyrirtæki verði tilbúin að taka næstu skref.