Óvissa vegna efna­hags- og tolla­stefnu Donalds Trump Bandaríkja­for­seta hefur komið sér vel fyrir stærstu fjár­festingar­banka heims. Á fyrsta árs­fjórðungi jókst hagnaður Gold­man Sachs um 15% og nam 4,74 milljörðum bandaríkja­dala, eða 14,12 dölum á hlut – langt um­fram væntingar markaðsaðila.

Heildar­tekjur bankans hækkuðu um 6% og námu 15,06 milljörðum dala. Þar vó þyngst veru­leg aukning í tekjum af við­skiptum, einkum í hluta­bréfa­við­skiptum og lán­veitingum til við­skipta­vina á þeim markaði. Sá þáttur skilaði 27% tekju­aukningu.

Óvissan knýr við­skipti og dregur úr ráðgjöf

Sam­kvæmt stjórn­endum bankans höfðu margir fjár­festar í upp­hafi árs stillt eignasöfn sín með von um áfram­haldandi yfir­burði bandarísks efna­hags­lífs.

Sú sýn hefur þó dofnað, og nú leita margir til evrópskra og suður-amerískra verðbréfa til að dreifa áhættu og verjast sveiflum á bandarískum mörkuðum.

Tekjur af af­leiðu­við­skiptum með hluta­bréf voru sér­stak­lega miklar á fyrsta árs­fjórðungi, þar sem fjár­festar leituðust við að tryggja sig gegn aukinni óvissu og mögu­legri verðbólgu.

Gold­man Sachs bætist þar með í hóp með JP­Morgan Chase og Morgan Stanl­ey sem einnig skiluðu auknum hagnaði, knúnum áfram af vaxandi við­skipta­tekjum. Bankarnir hafa hagnast vel á þóknunum sem fylgja stöðu­breytingum fjár­festa og aðlögun að óljósri stefnu ríkis­stjórnarinnar.

Hins vegar hefur óstöðug­leiki haft letjandi áhrif á aðra þætti starf­seminnar.

Fjár­festinga­banka­hluti Gold­man Sachs dróst saman um 8% og ráðgjafaþóknanir lækkuðu um 22%, þar sem fyrir­tæki frestuðu sam­runum, yfir­tökum og frumút­boðum vegna vaxandi markaðsóvissu.

Væntingar til stöðug­leika

Fram kemur að hátt­settir banka­stjórn­endur hafi um helgina átt fjölda funda með for­stjórum stór­fyrir­tækja til að meta hvenær nægi­legur stöðug­leiki gæti náðst til að hefja aftur frumút­boð og sam­runa­ferli.

Sam­kvæmt yfir­manni hjá Gold­man Sachs er það stöðug­leiki í alþjóða­við­skiptum sem nú skiptir sköpum. Hann sagði þörf á nokkrum ró­legum frétta­dögum áður en fyrir­tæki verði til­búin að taka næstu skref.