Ken Leech, einn af þekktari skuldabréfafjárfestum Bandaríkjanna, hefur verið ákærður fyrir stórfelld fjársvik í Bandaríkjunum fyrir að hafa handvalið hvaða fjárfestar í sjóði sínum tækju á sig tap meðan aðrir högnuðust.
Hin meintu brot áttu sér stað er Leech var fjárfestingastjóri Western Asset Management sem er dótturfélag Franklin Templeton.
Í ákærunni, sem The Wall Street Journal greinir frá, er Leech sakaður um að hafa fært 600 milljóna dala hagnað á viðskiptavini sem nutu sérstakrar hylli hans á meðan aðrir viðskiptavinir sátu eftir með 600 milljóna dala tap.
Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna (SEC) hefur einnig ákært Leech en lögmenn hans segja ákærurnar tvær eiga sér enga stoð í raunveruleikanum.
Hin meintu brot Leech eru sögð hafa átt sér stað á tímabilinu frá janúar 2021 til október 2023.
Fjölmiðlar greindu frá því í ársbyrjun að yfirvöld væru að rannsaka meint misferli Leech. Hann var sendur í leyfi í ágústmánuði en síðan sagt upp störfum fyrr í þessum mánuði.
Viðskiptavinir Wamco, eins og Western Asset Management er kallað vestanhafs, hafa dregið út 55 milljarða bandaríkjadali úr sjóðum fjárfestingafélagsins.
Samsvarar það um 15% af eignum sjóðsins, samkvæmt WSJ.