Brunnur vaxtarsjóður II fjárfesti fyrir 1,9 milljarða króna í sprotafyrirtækjum á síðasta ári. Eignir sjóðsins, sem er að mestu í eigu lífeyrissjóða, voru bókfærðar á 2,7 milljarða í lok síðasta árs.
Sjóðurinn keypti eignarhluti fyrir 1,4 milljarða í Arctic Theory, Quest Portal, AviLabs og Code North ásamt því að bæta við hlut sinn í Hopp og Taktikal.
Þá fjárfesti sjóðurinn einnig fyrir hálfan milljarð í breytanlegum skuldabréfum útgefnum af Vibe Music Inc., Kosmi Inc., Standby Depoits Inc. og Axelyf ehf.
Óádregin áskriftarloforð námu 5,4 milljörðum um síðustu áramót. Sjóðurinn tapaði 29 milljónum í fyrra.
Fyrri sjóðurinn hagnast um 66 milljónir
Fyrri vísisjóður Brunns Ventures, sem áformað er að slíta í lok næsta árs, hagnaðist um 66 milljónir í fyrra samanborið við 440 milljónir árið 2021.
Eignir fyrri sjóðsins, Brunns vaxtarsjóðs, voru bókfærðar á 5 milljarða í lok síðasta árs. Langstærsta eign sjóðsins er eignarhlutur í augnlyfjaþróunarfélaginu Oculis sem var skráð á markað í Bandaríkjunum á dögunum.
Fréttin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út 9. mars 2023.