Landeldisfyrirtækið First Water fjárfesti fyrir um 8 milljarða króna í fyrra á athafnasvæði sínu við Laxabraut í Þorlákshöfn. Félagið fjárfesti fyrst og fremst í tönkum og búnaði sem tengist áframeldi en um er að ræða 25 milljón lítra eldistanka og vatnshreinsunarbúnað.

Áætlanir First Water gera ráð fyrir að framleiðsla félagsins í Þorlákshöfn verði komin í 50.000 tonn árið 2031 og er áætluð heildarfjárfesting um 120 milljarðar króna.

Þegar uppbyggingu lýkur eru áætlaðar tekjur um 74 milljarðar króna á ári. Gert er ráð fyrir að um 300 manns muni starfa hjá félaginu þegar starfsemin í Þorlákshöfn hefur náð fullum afköstum.

First Water, sem hélt aðalfund á fimmtudaginn síðasta, framleiddi og seldi um 1.300 tonn af laxi fyrir andvirði 1.241 milljónir króna á síðasta ári.

Heildartekjur félagsins á síðasta ári námu um 1.241 milljónum króna og jókst um 274% milli ára. Rekstrarkostnaður á árinu nam 2.908 milljónum króna og EBITDA var neikvæð um 1.659 milljónir. Rekstrartap eftir skatta og fjármagnsliði nam um 1.174 milljónir króna samanborið við 1.136 milljónir árið á undan.

Samtals störfuðu 71 starfsmaður hjá félaginu í 65 stöðugildum um síðastliðin áramót.

Fyrsta fasa ljúki um mitt næsta ár

Félagið segir að framleiðslan lofi mjög góðu þar sem um 94% þeirra afurða sem framleiddar hafa verið séu flokkaðar sem hágæða afurðir (e. superior) og hlotið góðar viðtökur hjá erlendum kaupendum.

Fram kemur að nú sé gert ráð fyrir að fyrsta fasa af 6 verði lokið fyrir mitt ár 2026, en félagið hafði áður gefið það út að stefnt yrði að því að ljúka honum á þessu ári. Framleiðslugeta í hverjum fasa verði 8.300 tonn af slægðum laxi. Það sé á pari við framleiðslugetu stærstu landeldisfyrirtækja bæði í Noregi og Bandaríkjunum.

First Water samdi við Arion Banka og Landsbankann um 12 milljarða króna fjármögnun á síðasta ári. Í febrúar síðastliðnum lauk félagið um 5.700 milljóna króna hlutafjáraukningu.

„Fjármögnun félagsins verður áfram eitt af meginverkefnum stjórnenda First Water en félagið samdi á síðasta ári við alþjóðlega fjárfestingabankann Lazard með það að markmiði sækja um 15-22 milljarða króna í nýju hlutafé.“

Orri Hauksson nýr stjórnarformaður

Orri Hauksson, fyrrverandi forstjóri Símans, kom nýr inn í stjórn félagsins og tók jafnframt við stjórnarformennsku af Örvari Kjærnested sem mun sitja áfram í stjórninni.

Stjórnarmönnum félagsins var fjölgað úr fjórum í sjö á fundinum og komu fjórir nýir einstaklingar inn í stjórnina. Eftirfarandi tóku sæti í stjórn félagsins:

  • Baldvin Valdimarsson
  • Björk Þórarinsdóttir
  • Eva Bryndís Helgadóttir
  • Helen Neely
  • Orri Hauksson
  • Steinar Helgason
  • Örvar Kjærnested
Orri Hauksson lét af störfum sem forstjóri Símans síðasta sumar.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)