Félög sem tengjast forstjóra og tveimur stjórnarmönnum Play lögðu flugfélaginu til samtals um einn milljarð króna í nýafstaðinni hlutafjáraukningu. Þetta kemur fram í kauphallartilkynningu sem send var út í gærkvöldi.

Play sótti 4,6 milljarða króna í fjármögnunarlotunni sem tilkynnt var um í byrjun febrúar þar sem áskriftarverð var 4,5 krónur á hlut en bróðurparturinn af hlutafjáraukningunni má rekja til áskrifta fagfjárfesta. Ferlinu lauk formlega þegar almennu hlutafjárútboði, þar sem áskriftir að fjárhæð 105 milljónir króna bárust, lauk á fimmtudaginn síðasta.

Einir ehf., eignarhaldsfélag í 100% eigu Einars Arnar Ólafssonar, forstjóra Play, skráði sig fyrir 55,5 milljónum hluta og keypti því hlutabréf í Play fyrir 250 milljónir króna. Fjárfestingarfélagið Gnitanes, sem Einar Örn stýrir og á um 40% hlut í samkvæmt ársreikningaskrá, fjárfesti einnig fyrir 250 milljónir króna í Play í fjármögnunarlotunni.

Fea ehf., eignarhaldsfélag í 100% eigu Elíasar Skúla Skúlasonar, stjórnarformanns Play, skráði sig fyrir 66,7 milljónum hluta og keypti því fyrir 300 milljónir króna. Jafnframt keypti Rea, móðurfélag Airport Associates, hlutabréf í Play fyrir 150 milljónir króna. Elías Skúli er stjórnarformaður Rea og á 26% hlut í félaginu.

KG eignarhald ehf., sem er í 100% eigu eiginmanns Guðnýjar Hansdóttur, stjórnarmanns í Play, skráði sig fyrir nærri 8 milljónir hluta og fjárfesti því fyrir um 35,9 milljónir króna.

Viðskipti félaga tengdum forstjóra og meðlimum stjórnar Play

Fjöldi hluta Kaupverð (m.kr.)
Einir ehf. 55.555.556 250
Gnitanes ehf. 55.555.556 250
Fea ehf. 66.666.668 300
Rea ehf. 33.333.333 150
KG eignarhald ehf. 7.978.578 36