Félög sem tengjast forstjóra og tveimur stjórnarmönnum Play lögðu flugfélaginu til samtals um einn milljarð króna í nýafstaðinni hlutafjáraukningu. Þetta kemur fram í kauphallartilkynningu sem send var út í gærkvöldi.
Play sótti 4,6 milljarða króna í fjármögnunarlotunni sem tilkynnt var um í byrjun febrúar þar sem áskriftarverð var 4,5 krónur á hlut en bróðurparturinn af hlutafjáraukningunni má rekja til áskrifta fagfjárfesta. Ferlinu lauk formlega þegar almennu hlutafjárútboði, þar sem áskriftir að fjárhæð 105 milljónir króna bárust, lauk á fimmtudaginn síðasta.
Einir ehf., eignarhaldsfélag í 100% eigu Einars Arnar Ólafssonar, forstjóra Play, skráði sig fyrir 55,5 milljónum hluta og keypti því hlutabréf í Play fyrir 250 milljónir króna. Fjárfestingarfélagið Gnitanes, sem Einar Örn stýrir og á um 40% hlut í samkvæmt ársreikningaskrá, fjárfesti einnig fyrir 250 milljónir króna í Play í fjármögnunarlotunni.
Fea ehf., eignarhaldsfélag í 100% eigu Elíasar Skúla Skúlasonar, stjórnarformanns Play, skráði sig fyrir 66,7 milljónum hluta og keypti því fyrir 300 milljónir króna. Jafnframt keypti Rea, móðurfélag Airport Associates, hlutabréf í Play fyrir 150 milljónir króna. Elías Skúli er stjórnarformaður Rea og á 26% hlut í félaginu.
KG eignarhald ehf., sem er í 100% eigu eiginmanns Guðnýjar Hansdóttur, stjórnarmanns í Play, skráði sig fyrir nærri 8 milljónir hluta og fjárfesti því fyrir um 35,9 milljónir króna.
Viðskipti félaga tengdum forstjóra og meðlimum stjórnar Play
Kaupverð (m.kr.) |
250 |
250 |
300 |
150 |
36 |