Heimilin á Ís­landi standa traustum fótum að mati Seðla­banka Ís­lands, sam­kvæmt nýjustu út­gáfu Peninga­mála.

Skuldir heimila hafa dregist saman í hlut­falli við bæði lands­fram­leiðslu og ráðstöfunar­tekjur og eru nú með því lægsta sem sést hefur í sögu­legu sam­hengi.

Einnig hefur inn­lána­vöxtur verið kröftugur síðustu tvö ár og vaxta­tekjur heimilanna aukist í takt við það.

„Fjár­hags­staða heimila er enn sterk á heildina litið þar sem kaup­máttur launa hefur aukist áfram, neyslulán hafa dregist saman að raun­virði og eignastaða þeirra er góð,“ segir í Peninga­málum.

Þrátt fyrir háa vexti hefur hlut­fall lána í van­skilum einungis hækkað lítil­lega, sem gefur til kynna viðnámsþrótt al­mennings gagn­vart hækkandi fjár­magns­kostnaði. Van­skil eru nú einnig tals­vert minni en þau voru fyrir heims­far­aldurinn.

Vaxta­kjör hafa að sama skapi þróast í takt við breytingar á stýri­vöxtum. Vextir nýrra óverð­tryggðra inn- og útlána hafa lækkað, en lækkunin hefur verið hægari á föstum vöxtum en breyti­legum.

Verð­tryggð lán hækkuðu tals­vert á síðasta ári, en hafa lítið breyst á árinu 2025. Bankarnir hafa auk þess þrengt lántöku­skil­yrði verð­tryggðra lána, sem eykur áhrif hárra raun­vaxta á greiðslu­byrði.

Vaxta­gjöld heimila sem hlut­fall af ráðstöfunar­tekjum hækkuðu einungis lítil­lega í fyrra, en vaxta­tekjur jukust meira. Hlut­fall vaxta­tekna heimila af ráðstöfunar­tekjum hefur ekki verið hærra fá árinu 2010.

Mikil óvissa ríkti um áhrif endur­skoðunar á lága fasta vexti óverð­tryggðra húsnæðislána sem átti sér stað á síðasta ári og fyrri hluta þessa árs.

Sú endur­skoðun er nú að mestu lokið.

Margir hafa leitað í verð­tryggð lán til að halda greiðslu­byrði niðri og draga úr sveiflum í út­gjöldum sínum. Þessi þróun skýrir hluta aukningar í verð­tryggðum húsnæðislánum síðustu 18 mánuði.

Þrátt fyrir hækkaða vaxta­byrði á sumum sviðum sýna nýjustu gögn að heimilin hafa aðlagað sig að breyttum skil­yrðum með varfærni og styrk.