Heimilin á Íslandi standa traustum fótum að mati Seðlabanka Íslands, samkvæmt nýjustu útgáfu Peningamála.
Skuldir heimila hafa dregist saman í hlutfalli við bæði landsframleiðslu og ráðstöfunartekjur og eru nú með því lægsta sem sést hefur í sögulegu samhengi.
Einnig hefur innlánavöxtur verið kröftugur síðustu tvö ár og vaxtatekjur heimilanna aukist í takt við það.
„Fjárhagsstaða heimila er enn sterk á heildina litið þar sem kaupmáttur launa hefur aukist áfram, neyslulán hafa dregist saman að raunvirði og eignastaða þeirra er góð,“ segir í Peningamálum.
Þrátt fyrir háa vexti hefur hlutfall lána í vanskilum einungis hækkað lítillega, sem gefur til kynna viðnámsþrótt almennings gagnvart hækkandi fjármagnskostnaði. Vanskil eru nú einnig talsvert minni en þau voru fyrir heimsfaraldurinn.
Vaxtakjör hafa að sama skapi þróast í takt við breytingar á stýrivöxtum. Vextir nýrra óverðtryggðra inn- og útlána hafa lækkað, en lækkunin hefur verið hægari á föstum vöxtum en breytilegum.
Verðtryggð lán hækkuðu talsvert á síðasta ári, en hafa lítið breyst á árinu 2025. Bankarnir hafa auk þess þrengt lántökuskilyrði verðtryggðra lána, sem eykur áhrif hárra raunvaxta á greiðslubyrði.
Vaxtagjöld heimila sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hækkuðu einungis lítillega í fyrra, en vaxtatekjur jukust meira. Hlutfall vaxtatekna heimila af ráðstöfunartekjum hefur ekki verið hærra fá árinu 2010.
Mikil óvissa ríkti um áhrif endurskoðunar á lága fasta vexti óverðtryggðra húsnæðislána sem átti sér stað á síðasta ári og fyrri hluta þessa árs.
Sú endurskoðun er nú að mestu lokið.
Margir hafa leitað í verðtryggð lán til að halda greiðslubyrði niðri og draga úr sveiflum í útgjöldum sínum. Þessi þróun skýrir hluta aukningar í verðtryggðum húsnæðislánum síðustu 18 mánuði.
Þrátt fyrir hækkaða vaxtabyrði á sumum sviðum sýna nýjustu gögn að heimilin hafa aðlagað sig að breyttum skilyrðum með varfærni og styrk.