Burger King og Yum Brands, sem rekur meðal annars Taco Bell, hafa ákveðið að fjarlægja lauka á tilteknum veitingastöðum sínum í Bandaríkjunum eftir E.coli-sýkingu á McDonald’s.

Verið er að rannsaka hvort laukar frá framleiðandanum Taylor Farms í Colorado hafi verið sökudólgurinn í E.coli-sýkingu sem kom upp síðustu helgi á McDonald‘s í Colorado og Nebraska.

Talsmaður Yum Brands segir að búið sé að fjarlægja ferskan lauk af nokkrum veitingastöðum Taco Bell, Pizza Hut og KFC. Burger King hefur þá fjarlægt lauk frá 5% af bandarískum veitingastöðum.

Rannsóknin á uppruna sýkingarinnar er enn í gangi en búið er að staðfesta minnst 49 tilfelli í 10 ríkjum og hefur einn látist. CDC hefur talað við 18 manns sem fengu E.coli og sögðu 14 þeirra að þau hafi pantað sér Quarter Pounder-hamborgarann á McDonald‘s.

Til að bregðast við þessari staðreynd hefur McDonald‘s einnig fjarlægt Quarter Pounder-hamborgarann frá rúmlega fimmtungi bandarískra veitingahúsa sinna.