Nasdaq Iceland (Kauphöllin) tilkynnti í morgun um stofnun Styrktarsjóðs Nasdaq Iceland. Styrktarsjóðurinn er fjármagnaður með févítum sem Viðurlaganefnd Nasdaq Iceland hefur beitt vegna brota á reglum Kauphallarinnar.
„Sjóðnum er ætlað að styðja við verkefni sem auka fjármálalæsi og efla sjálfstraust almennings til þátttöku í þeirri verðmætasköpun sem markaðir geta boðið upp á og stuðla þannig að jafnari tækifærum og aukinni sjálfbærni,“ segir í tilkynningu Kauphallarinnar.
Kauphöllin segir að félög, stofnanir og samtök með verkefni sem miða að því að efla fjármálalæsi á meðal almennings og bæta aðgengi að þekkingu um verðbréfamarkaði, geti sótt um styrk.
„Sérstök áhersla verður lögð á verkefni sem styðja við hópa sem hafa minna tekið þátt á hlutabréfamarkaði, með það að markmiði að efla sjálfstraust þeirra og tækifæri til þátttöku.“
Úthlutað verður úr sjóðnum einu sinni á ári til eins eða fleiri umsækjenda. Umsóknarfrestur vegna næstu úthlutunar er til og með 10. september 2025.