Fyrsti formlegi fundur nýrrar ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar fór fram í morgun en meðal umræðuefna var framlagning fjármálaáætlunar fyrir árin 2025-2029. Sigurður Ingi Jóhannsson tók við af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur sem fjármálaráðherra í vikunni.
Til stendur að kynna áætlunina á þriðjudaginn í næstu viku og er gert ráð fyrir að hún verði lögð fram á Alþingi síðar í vikunni.
Samkvæmt starfsáætlun þingsins, sem samþykkt var í janúar sl., stóð upprunalega til að fyrri umræða um fjármálaáætlun myndi fara fram 19. mars.
Gerð áætlunarinnar hefur aftur á móti tafist all nokkuð, meðal annars vegna viðbragða stjórnvalda við jarðhræringum á Reykjanesi og nýgerðum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.
Greint var frá því í síðustu viku að til stæði að leggja áætlunina fram í þessari viku en stólaskipti ráðherra í kjölfar þess að Katrín Jakobsdóttir baðst lausnar til að fara í forsetaframboð flæktu aftur fyrir.