Samtök Atvinnulífsins gagnrýna fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2024-2028 í umsögn sinni þar um. Samkvæmt áætluninni er ráðgert að jafnvægi komist aftur á í ríkisfjármálum eftir erfitt tímabil sökum heimsfaraldurs. Samtökin telja þó að heildaráhrifin á ríkissjóð þurfi ekki að vera jafn mikil og langvarandi eins og áætlunin gerir ráð fyrir.

SA hafa einnig áhyggjur af því að stjórnvöld falli í þá freistni að stofna til nýrra útgjalda, á sama tíma og tekjur séu að vaxa hraðar en gert var ráð fyrir eftir heimsfaraldur. Samtökin sakna þess dregið sé úr vaxtakostnaði og leggja áherslu á lækkun skulda.

Óráð að hækka skatta þegar vandinn liggur í útgjöldum

Samtökin gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að hækka álögur til að rétta af rekstur ríkissjóðs, án þess að leita tækifæra til hagræðingar á útgjaldahliðinni. Fjármálaáætlun markist af stefnulausum útgjaldavexti. Þau telja að aukin skattheimta sé ekki rétt lausn, þar sem tekjuhliðin hefur ekki verið stærsta vandamálið í rekstri hins opinbera. SA bendir á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telji líklegra til árangurs að grípa til aðgerða á útgjaldahlið ríkissjóðs, en meiri hagræðing sé líklegri til að skila varanlegum ávinningi.

Þá telja SA skynsamlegt að fá sérfræðinga innan raða OECD til að hjálpa við innleiðingu á verkferlum sem stuðla að bættum rekstri ríkissjóðs. Þau vilja einnig að útgjaldaregla verði lögfest til hliðar við þær fjármálareglur sem þegar má finna í lögum um opinber fjármál.

Leiðrétting: Í upphaflegri frétt var sagt að SA hefði lagt til að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skoðaði útgjaldahlið ríkissjóðs. Það var því rangt haft eftir úr umsögn SA. Hið rétta er að AGS hefur bent á að aðgerðir á útgjaldahlið séu líklegri til að skila árangri í opinberum fjármálum.