Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og forstjórar systurstofnana Seðlabankans á hinum Norðurlöndunum, sem fara fyrir fjármálaeftirliti og skilavaldi, sendu í maí bréf á Evrópska bankaeftirlitið EBA þar sem varað var við flækjustigi regluverks sem gildir um fjármálastarfsemi á evrópska efnahagssvæðinu. Brýnt væri að leita leiða til að einfalda regluverkið.

„Í þessu bréfi leggjum við ríka áherslu á nauðsyn þess að einfalda hið samræmda regluverk (e. single rulebook) og gera það sveigjanlegra – þannig að það þjóni betur markmiðum um fjármálastöðugleika og skilvirka framkvæmd,“ segir í bréfinu.

Ásgeir ásamt forstjórum fjármálaeftirlita hinna Norðurlandanna, í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi, sendu áþekkt bréf síðasta sumar til evrópskra fjármálaeftirlitsstofnanna þar sem  listaðar voru áhyggjur af íþyngjandi flækjustigi regluverks um fjármálamarkaði og hvatt til einföldunar á því við upphaf nýs kjörtímabils á Evrópuþinginu.

Í bréfinu sem sent var í maí síðastliðnum er lögð sérstök áhersla á umfangsmikið regluverk um svokallað skilavald (e. resolution authority) sem hér á landi heyrir undir Seðlabankann og hefur verið að störfum frá árinu 2020. Skilavaldi er ætlað að hafa til staðar uppfærðar áætlanir um hvernig brugðist verði við, lendi fjármálafyrirtæki í verulegum fjárhagserfiðleikum og riði til falls.

Í bréfinu í maí er tekið fram margt í regluverkinu er snýr að endurreisn og skilameðferðum fjármálafyrirtækja (BRRD) hafi verið til bóta og stuðlað að bættri framkvæmd hjá eftirlitsaðilum og fjármálafyrirtækjum. Hins vegar hafi sú viðleitni að hafa regluverkið sem víðtækast og samræmt orðið til þess að kerfið sé í mörgum tilvikum orðið of flókið, of ítarlegt og rekstrarlega íþyngjandi – bæði fyrir yfirvöld og fjármálageirann sjálfan.

Flækjustigið flækist fyrir þegar á reynir

Of mikill tími fari í að uppfylla ítarlegar kröfur regluverksins, sem geti verið á kostnað brýnni atriða í samræmi við upphaflegan tilgang þess. Þá kalli nýjar áskoranir á borð við óróa í heimsmálum og vaxandi netárásir á að beina þurfi auknum kröftum frekar í þá átt. Það geti verið  illmögulegt vegna þess tíma sem fari í að uppfylla ítarlegar kröfur regluverksins sem í sumum tilfellum skipti í reynd óverulegu máli og geti jafnvel flækst fyrir þegar á reynir.

„Í sumum tilfellum, hefur hið mikla umfang smáatriða í regluverkinu haft þveröfug áhrif í reynd þar sem yfirvöld neyðast til að verja mannafla og fjármunum í önnur atriði en þau brýnustu þegar undirbúningur og framkvæmd skilameðferðar á sér stað.“

Bent er á að ítarlegt regluverk eitt og sér tryggi ekki trúverðugar og skilvirka framkvæmd í samræmi við tilgang laganna. Þá er bent á í bréfinu sem sent var í maí að gagn væri af nákvæmari kostnaðar- og ábatagreiningu áður en nýjar reglur og reglugerðir eru settar af hálfu evrópskra eftirlitsstofnanna til að tryggja að reglurnar virki í samræmi við ætlaðan tilgang þeirra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.