Stefán Einar Stefánsson, blaðamaður hjá Morgunblaðinu, var kærður til sérstaks saksóknara af Fjármálaeftirlitinu vegna fréttaflutnings um Sparisjóð Vestmannaeyja árið 2015. Stefán Einar lýsir málinu og hvernig eftirlitið var sjálft að sök í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark.
Árið 2015 tók Landsbankinn yfir allar eignir og skuldbindingar Sparisjóðs Vestmannaeyja sem var þá í alvarlegum fjárhagskröggum. Athugun á útlánasafni sjóðsins í árslok 2014 leiddi í ljós að raunverulegt eiginfjárhlutfall hans væru undir því lágmarki sem Fjármálaeftirlitið hafði sett. Forsvarsmenn sjóðsins sögðu á sínum tíma að útlánasafnið hafi verið ofmetið þegar sjóðurinn gekk í gegnum endurskipulagningu árið 2010.
Stefán Einar segir frá því að hann hafi komist á snoðir um að það væri einn sparisjóður sem stæði mjög illa en vissi þó ekki hvaða sjóður það væri. Hann hringdi í kjölfarið í sparisjóðsstjóra landsins og allir svöruðu á þann veg að allt væri í lukkunnar velstandi og sparisjóðirnir hafi aldrei staðið betur.
Hann hafði í kjölfarið samband við fjölmiðlafulltrúa Fjármálaeftirlitsins og bað um að fá samband við einn af yfirmönnum eftirlitsins þar sem hann hefði upplýsingar um að einn sparisjóður væri í fjárhagskröggum og jafnvel við það að falla.
„Þessi sami yfirmaður, sem ég ætla ekki að nefna á nafn hérna, hringir í mig til baka nokkuð æstur og segir „Sæll, ég frétti af því að þú hefðir hringt í okkur út af Sparisjóði Vestmannaeyja“. Þar með hafði auðvitað Fjármálaeftirlitið gefið upp hver sjóðurinn var. Þannig náðum við að rannsaka málið í þaula og að lokum flytja frétt af stöðunni.“
Stefán Einar greinir frá því að Fjármálaeftirlitið hafi kært sig til sérstaks saksóknara vegna meints brots á bankaleynd við fréttaflutninginn og var því boðaður í yfirheyrslu.
„Ég fór til sérstaks saksóknara og þar mættu mér ábúðarfullir lögreglumenn og spurðu mig spurninga. Þeir fengu ekki mjög gáfuleg svör. Nánast jafngáfuleg svör og þegar Stella í orlofi sagði „hver á þennan bústað, já eða nei?“ Það varð auðvitað ekkert úr þessu máli,“ sagði Stefán Einar og nýtti tækifærið til að senda „Kastljósfólki og Kjarnamönnum“ pillu fyrir að þora ekki að mæta í yfirheyrslu hjá lögreglu.
„Kannski er ég eini einstaklingurinn til að vera kærður fyrir brot á bankaleynd af þeim sem braut hana sjálfur.“
Stefán Einar ræddi einnig um Kampavínsfjelagið sitt, bókaútgáfu og Wow Air en hann skrifaði bók um sögu flugfélagsins sem kom út árið 2019. Í umræðum um fluggeirann spáði hann því að Icelandair og Play myndu sameinast innan 5-6 ára.