Alþjóðlegir hlutabréfamarkaðir lækkuðu skarpt við opnun markaða í dag. Lækkanir á mörkuðum má rekja til áhyggna fjárfesta um yfirvofandi samdrátt vestanhafs og ótta um að bandaríski seðlabankinn hafi brugðist of seint við vísbendingum um samdrátt í hagkerfinu. 

Atvinnuleysi í Bandaríkjunum mælist nú 4,3% og hefur ekki verið hærra frá því í október 2021. Fjárfestar búast nú við því að stýrivextir vestanhafs verði lækkaðir um 1,25 prósentustig á árinu, að því er kemur fram í grein Financial Times.

Mesta lækkun í 37 ár

Hlutabréfavísitölur í Asíu hafa lækkað sérstaklega skarpt það sem af er degi. 

Vísitalan Topix hefur lækkað um 12,2% sem er mesta lækkun vísitölunnar á einum degi frá „Svarta mánudeginum” í októbermánuði árið 1987. Japanska Nikkei-vísitalan hefur fallið um 12.4%, í Suður-Kóreu hefur vísitalan lækkað um tæp 9% og í Taívan um rúm 8%.

Bitcoin lækkað um 9%

Aðrar hlutabréfavísitölur hafa lækkað um nokkur prósent það sem af er degi.

Ástralska vísitalan S&P/ASX hefur lækkað um tæp 4%, indverska vísitalan Sensex hefur lækkað um tæp 3%, og evrópska Stoxx Europe 600 vísitalan hefur lækkað um rúm 2%. Þá hefur FTSE-vísitalan í London lækkað um rúm 2%. Gengi rafmyntarinnar Bitcoin hefur einnig lækkað um 9% það sem af er degi.

Þá hefur S&P 500 hefur lækkað um 3% frá opnun markaða og Nasdaq 100 um rúm 3%. Gengi bréfa Nvidia hefur lækkað um 7% frá opnun markaða, Apple um 5% og Tesla um 5,5% þegar þessi grein er skrifuð. 

Mikil hækkun VIX vísitölunnar

Þá hefur VIX-vísitalan hækkað um 80% frá opnun markaða.

Vísitalan er notuð sem einn helsti mælikvarði á áhættufælni fjárfesta en hún mælir fólgið flökt (e. implied volatility) í framtíðarsamningum á S&P 500 vísitöluna til skemmri tíma.

Há gildi á VIX gefa venjulega til kynna mikla óvissu á markaðnum og ótta meðal fjárfesta, á meðan lág gildi benda til minni óvissu á markaðnum.