Fjármálaráð, sem hefur það lögbundna hlutverk að veita sjálfstætt mat á stefnumörkun í opinberum fjármálum, gagnrýnir í nýrri álitsgerð fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2026 til 2030. Ráðið bendir á að tímasetning og framkvæmd stefnunnar grafi undan því hlutverki sem henni er ætlað samkvæmt lögum.

Ráðið varar við því að stefna stjórnvalda byggi á afar bjartsýnum forsendum um hagvöxt og kallar eftir skýrari stefnu um hvernig eigi að ná sjálfbærni í opinberum fjármálum.

Í álitsgerð ráðsins segir að mikil óvissa ríki um þróun efnahagsmála á næstu árum og að það dragi úr trúverðugleika skuldalækkunaráforma að þau séu að mestu afturhlaðin, þ.e. áformuð síðar á tímabilinu.

Byggt á meðalspám í óvissuástandi

Ráðið bendir á að efnahagsforsendur fjármálastefnunnar séu um margt veikburða. Á tímum óvissu sé það skynsamlegt að stilla væntingum í hóf, en óheppilegt að byggja of mikið á því að flestar stærstu hagstærðirnar haldi sig við söguleg meðaltöl.

Í stefnu stjórnvalda er gert ráð fyrir að skuldir umfram 30% af landsframleiðslu lækki á tímabilinu.

Hins vegar á meginhluti lækkunarinnar að eiga sér stað undir lok tímabilsins. Ráðið telur það veikja trúverðugleika áætlunarinnar og bendir jafnframt á að skuldalækkun sé í raun ætluð að nást með því að hagkerfið vaxi hraðar en skuldirnar.

„Í þessu samhengi er vert að gæta að því að gert er ráð fyrir því að skuldalækkunin muni að miklu leyti eiga sér stað með þeim hætti að hagkerfið vaxi hraðar en skuldirnar. Slíkt kallar á efnahagsstefnu sem tryggir sjálfbæran hagvöxt en það verður best gert með skynsamlegri nýtingu fjármuna og aukinni framleiðni í hagkerfinu. Reynslan hefur sýnt að aukin útgjöld til málaflokka eru ekki trygging fyrir betri þjónustu. Til að tryggja gagnsæi og sjálfbærni í framlagðri fjármálastefnu þyrfti að fjalla um hvernig hún styður við markmið um aukinn hagvöxt og framleiðnivöxt.“

Af hverju hjaðna útgjöld ekki eftir faraldur?

Í álitsgerðinni vekur ráðið sérstaka athygli á því að umfang opinberra útgjalda sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafi ekki minnkað að neinu marki þrátt fyrir að áhrif heimsfaraldursins séu að mestu gengin til baka.

Þetta sé sérstaklega áhugavert í alþjóðlegu samhengi, þar sem mörg ríki hafi náð að skera niður útgjöld tiltölulega fljótt eftir áfallið. Ráðið telur brýnt að stjórnvöld rýni í hvers vegna svo sé ekki á Íslandi.

Fjármálaráð hvetur stjórnvöld til að gera skýrari grein fyrir því hvernig fjármálastefna þeirra styður við markmið um aukinn hagvöxt og framleiðni í stað þess að leggja ofuráherslu á útgjaldavöxt sem mælikvarða á árangur.

„Hvernig hægt er að tryggja sjálfbæran hagvöxt til lengri tíma er ein mikilvægasta áskorun hagstjórnarinnar og ætti að vera umhugsunarefni stjórnvalda. Aukning í framleiðni krefst fjárfestinga og betri nýtingar fjármagns og vinnuafls. Líkt og fjármálaráð hefur ítrekað bent á í álitum sínum eru útgjöld ekki góður mælikvarði á árangur í rekstri hins opinbera. Sem dæmi má nefna að grunnskólakerfið á Íslandi er dýrt en skilar litlu þegar litið er til námsárangurs eins og hann er mældur í alþjóðlegum samanburði,” segir í álitinu.

Þrátt fyrir að ráðið styðji upptöku nýrrar útgjaldareglu (stöðugleikareglu) varar það við að 2% hámark á raunvexti verði túlkað sem markmið en ekki þak.

Þá gagnrýnir ráðið að fjármálastefnan hafi verið lögð fram nær samtímis fjármálaáætlun – sem sé í andstöðu við lögbundna stefnumótunarhringrás og rýri sjálfstæða þýðingu stefnunnar.

Í álitsgerðinni segir að fjármálastefnan eigi að liggja fyrir áður en fjármálaáætlun er kynnt, þar sem stefnan setji meginstefnu og ramma sem áætlunin eigi að útfæra.

Fjármálaráð telur að núverandi fyrirkomulag brjóti gegn þeirri röð og sé óheppilegt í ljósi lagaákvæða.

„Hér þarf að tryggja að útgjaldareglan sé bæði nægilega ströng og bindandi fyrir stjórnvöld. Þannig ber að varast að líta til hámarks raunútgjaldavaxtar upp á 2% sem sérstakt markmið heldur sem hámark. Mikil óvissa ríkir um þróun efnahagsmála á tímabili framlagðrar stefnu. Þessi óvissa endurspeglast í þeirri hagspá sem stefnan byggir á þar sem gert er ráð fyrir að flestar meiriháttar hagstærðir þróist í kringum meðaltal þeirra á síðustu árum og áratugum. Það verður að teljast skynsamlegt á tímum sem þessum.“