Rachel Reeves fjármálaráðherra Bretlands sætir nú gagnrýni vegna ferilskrár sinnar en ráðherrann hélt því fram að hún hefði starfað hjá Englandsbanka níu mánuðum meira en raun ber vitni.

Samkvæmt LinkedIn-síðu Reeves starfaði hún hjá Englandsbanka frá september 2000 til desember 2006. Samkvæmt BBC hafi hún hins vegar hætt í mars 2006 þegar hún hóf störf hjá Halifax Bank of Scotland (HBOS) í Yorkshire.

Talsmaður ráðherrans staðfesti að dagsetningarnar á ferilskrá Reeves væru ekki réttar og sagði að það hefði verið vegna mistaka starfsmanns úr teymi hennar. Að sögn talsmannsins hafði ráðherrann ekki fengið að sjá ferilskrána áður en hún var birt.

Reeves hefur áður nefnt reynslu hennar sem hagfræðingur hjá Englandsbanka sem ástæðu þess að hægt sé að treysta henni fyrir fjármálum þjóðarinnar en hún hafði ítrekað haldið því fram að hún hafi eytt hátt í tíu árum hjá bankanum.

BBC segir jafnframt að verið sé að rannsaka ráðherrann og tvo aðra stjórnendur HBOS í tengslum við útgjöld meðan hún starfaði þar. Talsmaður Keir Starmer segir hins vegar að forsætisráðherrann treysti henni fyrir starfi sínu.