Lögreglan í New York hefur staðfest að maðurinn sem lést eftir hátt fall úr íbúð sinni í Manhattan var Gustavo Arnal, fjármálastjóri Bed Bath & Beyond. Þetta kemur fram í grein hjá New York Post. Arnal lést stuttu eftir miðnætti á föstudaginn og telur lögreglan að um að hafi verið að ræða sjálfsvíg.
Samkvæmt New York Post átti Arnal yfir höfði sér 1,2 milljarða dala málsókn vegna mögulegrar markaðsmisnotkunar. Um var að ræða hópmálsókn meðal annars gegn Arnal og áhrifafjárfestinum Ryan Cohen. Snerist málsóknin um að þeir Arnal og Cohen, ásamt öðrum, hefðu blásið upp hlutabréfaverð BBBY og meðal annars beitt hinu svokallaða „gamma squeeze“ til að hagnast.
„Gamma squeeze“ á sér stað þegar verð undirliggjandi hlutabréfa hækkar hratt á skömmum tíma. Eftir því sem meira fjármagn flæðir inn í kauprétti á bréfunum eykur það kaup á bréfunum sem um leið getur leitt til hærra hlutabréfaverðs.
Arnal hóf störf hjá Bed Bath árið 2020 þegar hann kom frá snyrtivörumerkinu Avon. Þar áður hafði hann gegnt framkvæmdastöðum hjá Walgreens Boots Alliance og Procter & Gamble.
Sjá einnig: Gengi bréfa BBBY hríðlækkar
BBBY hefur verið í rekstrarerfiðleikum í nokkurn tíma og hefur velta félagsins dregist saman að undanförnu og félagið misst viðskiptavini sína til samkeppnisaðila. Þá hafa skuldir Bed Bath aukist hratt. Félagið hefur verið í leit af nýjum forstjóra eftir að Mark Tritton hætti í júní í kjölfar slæms uppgjörs.
Gengi bréfa félagsins hefur hríðfallið um 40% frá áramótum.