Fjármálastjóri Kviku banka, Ragnar Páll Dyer, keypti í morgun hlutabréf í félaginu fyrir tæplega 10 milljónir króna. Alls keypti hann 500 þúsund hluti í Kviku á genginu 19,7 krónur á hlut. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Nokkrir stjórnendur Kviku hafa átt í viðskiptum með bréf bankans á síðustu dögum. Marinó Örn Tryggvason, forstjóri bankans, seldi hlutabréf í félaginu fyrir 67 milljónir í síðustu viku eftir nýtingu áskriftarréttinda.

Ragnar Páll seldi í Kviku banka í byrjun janúar fyrir 79 milljónir króna, þá á genginu 26,4 krónur á hlut, í gegnum eignarhaldsfélagið H33 Invest. Viðskiptablaðið áætlaði að hann hafi átt tæplega 6 milljónir að nafnverði í Kviku eftir söluna í janúar. Því má ætla að Ragnar Páll fari með um 6,5 milljónir hluti í Kviku sem eru nærri 130 milljónir króna að markaðsvirði miðað við gengi bankans í dag.

Hann hóf störf innan samstæðu Kviku árið 2010 og varð framkvæmdastjóri Júpíter rekstrarfélags árið 2013. Ragnar Páll tók við sem framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Kviku árið 2019.