Í síðustu viku hélt Reykjavíkurborg skuldabréfaútboð. Fjármögnunarkjör borgarinnar hafa versnað til muna á milli ára, en á sama tíma í fyrra buðust Reykjavíkurborg sömu kjör og ríkinu á verðtryggð skuldabréf á gjalddaga 2032. Í útboði síðustu viku var ávöxtunarkrafa á skuldabréf Reykjavíkurborgar 3,6% borið saman við 1,8% ávöxtunarkröfu á ríkisskuldabréf á gjalddaga 2033.

Í útboðinu seldi Reykjavíkurborg verðtryggð skuldabréf til 9 ára 3,6% vöxtum fyrir 1,3 milljarða og til 25 ára á 3,5% vöxtum fyrir 1,9 milljarða, samtals 3,2 milljarðar króna. Umframeftirspurn var í útboðinu en tilboð bárust að nafnvirði 4,6 milljarða króna í flokkana.

Mynd frá Hagfræðideild Landsbanka
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Áforma að taka 21 milljarð að láni

Um er að ræða þriðja skuldabréfaútboð Reykjavíkurborgar í ár en fallið var frá síðustu tveimur fyrirhuguðu útboðum á útgáfuáætlun borgarinnar. Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023 er áformað að taka lán fyrir allt að 21 milljarð króna að markaðsvirði. Borgin hefur nú selt skuldabréf fyrir um 7,3 milljarða og dregið a.m.k. 3 milljarða króna á langtíma lánalínu hjá Íslandsbanka.