Langtíma­skuldaálag breska ríkisins hefur ekki verið hærri í nokkra ára­tugi í að­draganda út­boðs á skulda­bréfum til 30 ára.

Ávöxtunar­krafan (eða vextirnir) á 30 ára bréfunum hækkaði um þrjá punkta í morgun og fór upp í 5,21% í morgun. Krafan stendur í 5,19% þegar þetta er skrifað en krafan rauk upp rétt áður en út­boð á skulda­bréfum fyrir 2,25 milljarða punda hófst.

Bresk ríkis­skulda­bréf hafa verið undir þrýstingi síðastliðna mánuði vegna áhyggja fjár­festa af vaxandi skuldastöðu landsins.

Verka­manna­flokkurinn, sem hefur verið við völd frá því í júlí, til­kynnti nýverið um áform sín um að selja næstum met­fjölda skulda­bréfa á þessu fjár­lagaári til að loka fjár­hags­götum.

Einnig hafa væntingar um færri vaxtalækkanir Eng­lands­banka á árinu haft neikvæð áhrif á skulda­bréfa­markaðinn.

Fjár­festar reikna nú með tveimur lækkunum um 0,25 pró­sentu­stig á þessu ári, saman­borið við þrjár sem voru væntan­legar í byrjun desember.